Nýjast á Local Suðurnes

Mikil loftmengun mælist í Vogum

Mikil loftmengun mælist nú í Vogum á Vatnsleysuströnd, bæði vegna brennisteinsdíoxíðs (SO2) frá gosinu og svifryks vegna gróðurelda og gosmóðu. Gildin hafa farið vel yfir viðmiðunarmörk og hefur þriggja klukkustunda meðaltal brennisteinsdíoxíðs farið upp í 1000 míkrógrömm/rúmmetra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Þegar gildin mælast svo há er mælst til þess að loka gluggum og halda sig innandyra nema í brýnustu erindum. Loftmengun vegna eldgosa getur valdið sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk vægra flensueinkenna.

Ríkjandi sunnanátt næstu daga mun bera loftmengun til norðurs en úrkoma getur dregið úr mengun, sérstaklega sem verður vegna gróðurelda.

Sjá má meðfylgjandi mynd af loftgæðamæli í Vogum frá loftgaedi.is ásamt gasdreifingarspá.

  • Finna má ráðleggingar vegna heilsufarslegra áhrifa að völdum loftmengunar á síðu landlæknis https://island.is/eldgos-heilsa
  • Mælingar á loftgæðum eru aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunar www.loftgaedi.is
  • Spár um gasmengun má sjá á vef Veðurstofunnar https://www.vedur.is/eldfjoll/eldgos-a-reykjanesi/gasmengun/