Nýjast á Local Suðurnes

Ein rísandi stjarna í íslensku viðskiptalífi af Suðurnesjum

Listi, sem inniheldur nöfn 40 einstaklinga undir 40 ára aldri, sem fyrirtækið Góð samskipti telur vera stjórnendur framtíðarinnar, hefur vakið töluverða athygli á vefmiðlum í dag. Við val á listanum horfði fyrirtækið til þeirra sem eru 40 ára og yngri og náð hafa langt í kröfuhörðu umhverfi eða sinna stjórnunarstöðum sem fela í sér mikla ábyrgð innan íslenskra fyrirtækja.

Ein rísandi stjarna í íslensku viðskiptalífi kemur af Suðurnesjum, að mati Góðra samskipta, en það er Guðný María Jóhannsdóttir, forstöðumaður hjá Isavia. Í umsögn um Guðnýju segir að hún hafi hafið störf hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2004 þar sem hún starfaði fyrst sem verkefnastjóri og síðar sem markaðsstjóri. Guðný María er með B.S.-próf frá Háskólanum á Bifröst.

Þá segir að verkefni Guðnýjar hafi meðal annars verið að laða erlend flugfélög hingað til lands og í tíð hennar hefur þeim fjölgað margfalt sem fljúga til Keflavíkurflugvallar – þá hafa tekjur Isavia af komum og brottförum utan háannatíma einnig stóraukist.

Í fyrirvara sem fylgir listanum á vefsíðu fyrirtækisins kemur meðal annars fram að eðli málsins samkvæmt skekki ýmsar forsendur niðurstöðuna, meðal annars þannig að fleiri enda á listanum sem tilheyra tengslaneti Góðra samskipta.