Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær og Sandgerðisbær hafna viðræðum við Íbúðalánasjóð

Myndin tengis fréttinni ekki beint

Allar sveitarstjórnir á Suðurnesjum fengu bréf frá Íbúðalánasjóði í byrjun júní, þar sem þeim var boðið að kaupa eignir í eigu sjóðsins í viðkomandi sveitarfélagi áður en þær verða boðnar til sölu á almennum markaði í haust.

Í bréfinu er stungið upp á því að umræddar eignir gætu nýst sem félagslegt úrræði og er minnt á að sjóðurinn veiti sérstök lánakjör vegna kaupa á húsnæði í slíkum tilgangi.

Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa tekið erindi sjóðsins fyrir á bæjarráðs- eða bæjarstjórnarfundum, en Reykjanesbær og Sandgerðisbær höfnuðu erindi sjóðsins um kaup á umræddum fasteignum og bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs frestaði málinu. Bæjarráð sveitarfélagsins Voga hefur í hyggju að ganga til viðræðna við sjóðinn og hefur falið bæjarstjóra sveitarfélagsins að undirbúa málið.

Íbúðalánasjóður á yfir 100 eignir á Suðurnesjum og töldu forsvarsmenn sjóðsins að raunhæft hefði verið að selja hverju sveitarfélagi á bilinu 10-20 eignir.