Nýjast á Local Suðurnes

Veitingastaðir lokaðir á meðan stærsta körfuboltamót landsins fór fram

Nokkur þúsund manns heimsóttu Reykjanesbæ og nágrannasveitarfélagið Garð í tengslum við Nettómót yngri flokkanna í körfuknattleik, sem fram fór um síðustu helgi. Liðin koma víðs vegar að af landinu, en auk keppenda mætir fjöldi forráðamanna, þjálfara og liðstjóra á mótið. Þrátt fyrir þennan fjölda gesta var lokað á einhverjum veitingastöðum á Suðurnesjum í hádeginu á laugardag.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson gerir þetta að umtalsefni á Facebook-síðunni Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, en hann segir að við athugun hafi komið í ljós að hluti veitingamanna hafi ekki vitað af þessu stóra árlega móti.

“Þetta gerist þrátt fyrir að búið sé að fjalla vel um mótið í fjölmiðlum og á netinu í aðdraganda þess. Þetta þurfum við að laga svo gestir okkar fái eins góða þjónustu og kostur er en einnig svo rekstraraðilar nái að nýta þau tækifæri sem bjóðast þegar þúsundir gesta dvelja í bænum okkar heila helgi.” Sagði Kjartan Már í pistli sínum á Facebook-síðunni.

Mótið hefur verið haldið á sama tíma þ.e. fyrstu helgina í mars undanfarna áratugi og í umræðum við pistil Kjartans Más kemur fram að þetta hafi verið vandamál undanfarin ár þegar mótið hefur verið haldið, þrátt fyrir góða kynningu og að skipuleggjendur hafi samband við flest fyrirtæki á svæðinu í leit að auglýsingum og styrkjum í tengslum við mótið.