Amfetamín, kannabis og hraðakstur – Nóg að gera hjá lögreglunni á Suðurnesjum
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í gær afskipti af ökumanni sem reyndist vera með meint amfetamín, sem falið var í sígarettupakka. Annar ökumaður, sem lögregla hafði áður haft afskipti af reyndist einnig vera með amfetamín í fórum sínum og framvísaði hann því. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu neyslu hans á amfetamíni, metamfetamíni og kannabis.
Þá hafa 24 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á síðustu dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 137 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund.
Kannabisræktun í heimahúsi
Þá stöðvaði Lögreglan á Suðurnesjum nýverið kannabisræktun þar sem var að finna vel á annað hundrað plöntur. Það var lögreglumaður á frívakt sem varð var við mikla kannabislykt frá íbúðarhúsnæði í umdæminu. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var einn einstaklingur fyrir í umræddri íbúð, sem lyktin barst frá. Hann framvísaði tóbaksblönduðu kannabis, svokallaðri jónu.
Grunur lék á að eitthvað fleira leyndist í pokahorninu. Það reyndist rétt vera því lögreglumennirnir komu í þeim svifum auga á poka fullan af kannabisefni og mikinn ljósbjarma sem barst frá tveimur herbergjum í íbúðinni. Í herbergjunum fundust svo kannabisplönturnar. Málið er í rannsókn, segir í tilkynningu frá lögreglu.