Sprotafyrirtæki á Ásbrú gerir samninga – Vörur Mekano í verslanir um allan heim

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar hjá frumkvöðlunum Sigurði Erni og Guðmundi Arnari í sprotafyrirtækinu Mekano á Ásbrú, en fyrirtækið er að hefja framleiðslu á samsettum einingafjöltengjum. Frumkvöðlarnir hafa unnið sleitulaust að verkefninu í rúmt ár síðan hugmyndin þessari nýju tegund fjöltengja kom til.
Sigurður Örn er nýkominn heim úr viðskiptaferð frá Bandaríkjunum, þar sem hann náði samningum við framleiðsluaðila sem reka verksmiðjur í Kína þar sem vörur Mekano munu verða framleiddar. Auk þess gerði hann samkomulag við stóra dreifingaraðila í Bandaríkjunum sem hafa áhuga á að koma vörum Mekano í verslanir um allan heim.
Í byrjun Apríl er ferðinni svo heitið til Kína þar sem verksmiðjurnar verða skoðaðar og í framhaldi af því verða fyrstu vörurnar kynntar á einni stærstu raftækjasýningu heims í Hong Kong.
“Fyrsta tilraunarframleiðsla er þegar hafin og stefnt er að því að fyrstu vörunar verði tilbúnar fyrir Hong Kong Trade Show um miðjan Apríl. Eftir það verða einingarnar sendar til alþjóðlegra vottunaraðila í allar nauðsynlegar öryggisprófanir. Þegar allar vottanir hafa fengist getur salan svo formlega hafist út um allan heim.” Sagði Sigurður Örn í samtali við Suðurnes.net.
Mekano hefur nú opnað heimasíðu þar sem áhugasömum gefst kostur á að kynna sér starfsemi fyrirtækisins frekar og fræðast meira um þessa nýju gerð fjöltengja. Þeir sem bíða spenntir eftir að geta nálgast Mekano fjöltengið geta skráð sig á póstlista á síðunni og fylgst með gangi mála. Slóðin á heimasíðu Mekano er www.mekano.is.
Mekano tók þátt í Gullegginu, einni stærstu frumkvöðlakeppni landsins, árið 2015 og lenti þar í öðru sæti. Verkefnið hefur einnig hlotið ýmsa styrki meðal annars frá Tækniþróunarsjóði og Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.