Nýjast á Local Suðurnes

Bílastæðagjöld hækka umtalsvert við Keflavíkurflugvöll

Þann 1. apríl næstkomandi tekur gildi gjaldskrárbreyting á bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, breytingarnar eru gerðar vegna mikillar fjölgunar farþega um Keflavíkurflugvöll og aukinnar aðsóknar að bílastæðum við flugvöllinn er nauðsynlegt að fara í framkvæmdir við fjölgun þeirra. Gríðarleg aðsókn hefur verið í bæði skammtíma- og langtímastæði og á álagstímum hafa myndast langar biðraðir.

Á langtímastæðum er nýtingin allt að 96% sem þýðir að færri en 100 af 2.100 stæðum eru laus á álagstíma. Af þessum sökum verður gjaldskránni breytt og bílastæðagjöldin hækkuð, svo þau geti staðið undir kostnaði við stækkunarframkvæmdir. Einnig er nú hafin gjaldtaka á starfsmannabílastæðum við flugstöðina.

Fyrstu fimmtán mínúturnar á skammtímastæðum munu áfram verða gjaldfrjálsar en fyrsta klukkustund eftir það hækkar úr 230 krónum í 500 krónur og hver klukkustund eftir það mun kosta 750 krónur. Lang­tíma­stæði hækka einnig um­tals­vert.

Isavia hefur þá stefnu að tekjur af bílastæðum standi undir kostnaði við þá þjónustu sem þar er veitt og þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í. Með þessum breytingum á verðlagningu bílastæða verður hægt að fjölga bílastæðum í takt við farþegaaukningu.. Framkvæmdir eru þegar hafnar við ný starfsmannastæði og núverandi starfsmannastæði munu því fljótlega bætast við langtímastæðin. Við þessa framkvæmd mun farþegastæðum fjölga um 300. Segir í tilkynningu frá Isavia.

Nánari upplýsingar um hækkunina er að finna hér.