Nýjast á Local Suðurnes

Framkvæmdir gætu hægt á innritun

Framkvæmdir við töskufæribönd aftan við innritunarborð í brottfararsal flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hefjast í dag, þann 31. janúar, og standa fram í apríl. Framkvæmdirnar eru liður í endurbótum á töskuflokkunar- og innritunarkerfi í flugstöðinni sem nú standa yfir og hafa staðið yfir síðastliðin ár. Breytingarnar munu tryggja að kerfið uppfylli þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til þess.

Farþegar munu verða varir við breytta starfsemi á innritunarborðum 25-42 í brottfararsal flugstöðvarinnar þegar þeir innrita sig þar í flug en ekki verður hægt að skila af sér töskum á þeim borðum. Farþegum verður þá bent á að fara á annað innritunarborð með töskurnar sem verður sérstaklega tekið frá til töskumóttöku. Farþegar eru hvattir til að hafa það í huga fyrir brottför að framkvæmdirnar gætu hægt á innritun við þau borð sem um ræðir. Önnur innritunarborð í brottfararsalnum verða starfrækt í óbreyttri mynd.

Upplýsingar verða á skjáum í salnum um hvernig farþegum beri að haga innritun við borðin og starfsfólk flugvallarins boðið og búið að aðstoða fólk ef þörf er á. Þá verða innritunarborð í einhverjum tilvikum opnuð fyrr en vanalega og þá munu flugfélög upplýsa farþega sína um það.

Breytingarnar við  farangurskerfið er liður í heildstæðum framkvæmdum í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli,“ segir Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia.  Þetta verkefni og önnur sem hefjast á næstu mánuðum hafa m.a. það markmið að bæta enn frekar upplifun farþega á flugvellinum og efla þjónustu við þá. Samhliða breytingum á farangurskerfinu hafa verið settar upp nýjar sjálfsþjónustuleiðir, bæði fyrir innritun og afhendingu á töskum. Ég vona því að farþegar nýti tækifærið við þessar aðstæður og prófi sjálfsþjónustuleiðirnar. Fjölmörg flugfélög bjóða nú upp á möguleikann á sjálfinnritun og höfum við séð mikinn mun á biðtíma farþega þegar slíkar þjónustuleiðir eru notaðar.“