Alvarlegt umferðarslys á Reykjanesbraut
Tveggja bíla árekstur varð á Reykjanesbraut núna fyrir skemmstu og er mikill viðbúnaður á vettvangi.
Átta til tíu manns voru fluttir á sjúkrahús, en ekki er vitað hversu alvarlega fólkið er slasað segir varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Viðbúnaður á vettvangi er mjög mikill að sögn sjónarvotta. Um tíma voru þar fimm sjúkrabílar, dælubíll slökkviliðsins og lögreglubílar. Verið er að beina umferð annað á meðan vinna á vettvangi fer fram.
Í tilkynningu frá lögreglu vegna slyssins kemur fram að umferð verði lokað á Reykjanesbraut inn í Hafnarfjörð, (austur). Umferð í hina áttina verði stjórnað framhjá vettvangi þannig að það sé ekki alveg lokað í aðra áttina. Það megi þó búast við umferðartöfum á meðan aðgerðir á vettvangi fara fram.