Nýjast á Local Suðurnes

Yfir 200 manns mættu í árlega göngu Bláa lónsins og Grindavíkurbæjar

Hvorki fleiri né færri en 234 manns mættu í hina árlegu göngu Grindavíkurbæjar og Bláa lónsins á öðrum degi páska undir öruggri leiðsögn Sigrúnar Franklín Jónsdóttur. Gengið var m.a. um mosagróið Illahraun, framhjá Rauðhól (gígnum sem hraunið kom úr á sögulegum tíma), farið með Skipstíg, fornri þjóðleið, haldið austur með norðurhlíðum Þorbjarnarfells og inn á Baðsvelli. Kíkt var á þjófaslóðir og hin gömlu sel Grindvíkinga og hið litskrúðuga lónssvæði að lækningalindinni og endað í heilsulind.

Á vef Grindavíkurbæjar kemur fram að gaman hafi verið að sjá hversu vel var mætt og Sigrún Franklín fræddi göngugarpa um það sem fyrir augu bar af einstakri fagmennsku, á vefnum er einnig hægt að sjá flottar myndir sem teknar voru í göngunni.