Nýjast á Local Suðurnes

Opið fyrir styrkveitingar úr Samfélagssjóði HS Orku

Mynd: HS Orka

Næsta úthlutun úr Samfélagssjóði HS Orku verður þann 15. maí 2023, en sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við samfélagslega jákvæð verkefni einstaklinga eða hópa og eru styrkir veittir tvisvar sinnum á ári.

Opið verður fyrir umsóknir gegnum umsóknarsíðu frá 1. apríl til og með 30. apríl 2023, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Seinni styrkveiting ársins verður 15. október og opnað verður fyrir umsóknir þann 1. september.

Úthlutunarviðmið Samfélagssjóðs HS Orku

  • Sjóðurinn veitir styrki til skýrt skilgreindra verkefna og atburða. Styrkir eru veittir einstaklingum, hópum, sjálfseignarstofnunum og félagssamtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
  • Að jafnaði eru styrkir á bilinu 100 til 500 þúsund krónur. Í undantekningartilvikum geta hærri styrkveitingar komið til álita. Gert er ráð fyrir að styrkir séu nýttir að fullu innan 12 mánaða frá styrkveitingu.
  • Verkefni sem koma helst til greina:

Verkefni sem tengjast samfélags- og umhverfismálum, sjálfbærni og orkuskiptum.

Verkefni tengd lýðheilsu, menntun, fræðslu og forvörnum, æskulýðsstarfi, menningu og listum.

Verkefni sem skírskota til þeirra heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun sem HS Orka hefur innleitt.

  • Verkefni sem koma almennt ekki til greina:

Sjóðurinn veitir ekki rekstrarstyrki eða styrki vegna markaðsstarfs.

Sjóðurinn veitir almennt ekki náms- eða ferðastyrki. Ferðakostnaður getur þó eftir atvikum verið hluti af framkvæmd verkefna sem sjóðurinn styður.

Sjóðurinn veitir ekki styrki vegna rannsóknar- eða þróunarverkefna á vegum háskóla, stofnana, fyrirtækja eða einstaklinga.