Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík og Njarðvík gætu fengið vel á annan tug milljóna verði Arnór Ingvi seldur

Knattspyrnufélögin Njarðvík og Keflavík gætu fengið dágóða upphæð í sinn hlut ef samningar nást á milli Norrköping og austurríska félagsins Rapid Vín um söluna á landsliðsmanninum Arnóri Ingva Traustasyni til fyrir lok tímabilsins í Svíþjóð. Þetta helgast af því að upp­eld­is­fé­lög leik­manna fá greidd­ar svo­kallaðar sam­stöðubæt­ur, samkvæmt reglum FIFA, í hvert skipti sem leikmaður á aldr­in­um 12-23 ára skipt­ir um fé­lag á milli landa.

Reglur FIFA kveða einnig á um að samstöðubætur séu greiddar til loka þess tímabils sem leikmaður nær 23ja ára aldri, Arnór Ingvi fagnaði 23ja ára afmæli sínu þann 30. apríl síðastliðinn.

Sam­stöðubæt­ur eru að há­marki 5% af kaup­verði leik­manns. Hafi leikmaður leikið með fleiri en einu fé­lagi á aldr­in­um 12-23 ára skipt­ast bæt­urn­ar á milli fé­lag­anna í ákveðnu hlut­falli. 1% af kaup­verði fer til þess fé­lags eða fé­laga sem leikmaður­inn spilaði með frá 12 til 15 ára ald­urs. Það eru 0,25% fyr­ir hvert ár sem leikmaður­inn spilaði með fé­lagi. Eft­ir að leikmaður hef­ur náð 16 ára aldri fær fé­lag 0,5% af kaup­verði fyr­ir hvert ár sem leikmaður leik­ur með fé­lag­inu til 23 ára ald­urs. Sé leikmaður 22 ára þegar fé­lags­skipti eiga sér stað eru sam­stöðubæt­ur 4,5%. Ein­ung­is eru greidd full 5% í sam­stöðubæt­ur ef leikmaður skipt­ir um fé­lag þegar hann er 23 ára.

Arnór Ingvi kom upp í gegnum yngri flokka starfið í Njarðvík og var á mála hjá félaginu til ársins 2012 þegar hann gekk til liðs við Keflavík. Árið 2014 gekk Arnór Ingvi til liðs við Norrköping í Svíþjóð, þar sem hann átti stóran þátt í því að liðið varð sænskur meistari. Ef af sölunni verður er kaupverðið á landsliðmanninum talið vera tæplega 300 milljónir króna og því gætu félögin tvö, Njarðvík og Keflavík fengið í sinn hlut um 15 milljónir króna, sem skiptast þá á milli félagana samkvæmt reglum FIFA.