Nýjast á Local Suðurnes

Alvöru derbyleikur í Vogum – Mikil harka og tvö rauð spjöld á loft

Fjöldi áhorfenda mætti á völlinn í kvöld þegar boðið var upp á alvöru derbyleik á milli nágrannana Þróttar og Víðis úr Garði á Vogabæjarvelli. Mikil harka einkenndi leikinn sem endaði með því að tvö rauð spjöld fóru á loft.

Víðismenn hófu leikinn af krafti og skoruðu fyrsta markið strax á 6. mínútu, þar var að verki Róbert Örn Ólafsson. Víðismenn héldu áfram að sækja og uppskáru vítaspyrnu á 26. mínútu, sem þeim tókst þó ekki að skora úr. Þróttarinn Alexander Magnússon fékk svo að líta rauða spjaldið um miðjan fyrri hálfleik og ljóst að róðurinn myndi þyngjast töluvert gegn sterkum gestunum.

Víðismenn sóttu áfram í síðari hálfleik og uppskáru sitt annað mark á 69. mínútu þegar Helgi Þór Jónsson kom knettinum í netið. Helgi Þór var svo aftur á ferðinni á 75. mínútu og kom gestunum í 0-3. Fjörið var þó ekki alveg búið því Víðismaðurinn  Milo Jugovic var sendur í sturu á lokamínútu leiksins.

Víðir er í öðru sæti þriðju deildarinnar með 18 stig, jafn mörg og toppliðið Tindastóll, en örlítið verra markahlutfall. Þróttarar eru hinsvegar í sjöunda sæti deildarinnar með 7 stig.