Nýjast á Local Suðurnes

Aukning í sölu íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum

Innri - Njarðvík

Vikuna 20.-26. nóvember var 24 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst á Suðurnesjum, jafnmörgum var þinglýst í Kópavogi, aðeins var þinglýst fleiri samningum í Reykjavík.

Samkvæmt vef Þjóðskrár var fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 20. nóvember til og með 26. nóvember 2015 140. Þar af voru 97 samningar um eignir í fjölbýli, 28 samningar um sérbýli og 15 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 5.250 milljónir króna og meðalupphæð á samning 37,5 milljónir króna.

Á sama tíma var 24 kaupsamningum þinglýst á Suðurnesjum, og er þá átt við í öllum sveitarfélögum á svæðinu. Þar af voru 18 samningar um eignir í fjölbýli og 6 samningar um sérbýli. Heildarveltan var 430 milljónir króna og meðalupphæð á samning 17,9 milljónir króna. Þetta er aukning um átta samninga frá vikunni á undan þegar 16 samningum var þinglýst og heildarveltan var 313 milljónir króna.

Þjóðskrá tekur einnig saman meðaltal yfir selt íbúðarhúsnæði síðustu 12 vikna, samkvæmt þeirri samantekt seljast að meðaltali 17 eignir á viku á Suðurnesjum, 35 í Kópavogi og 98 í Reykjavík.

Í október var 73 samningum þinglýst á Suðurnesjum. Þar af voru 35 samningar um eignir í fjölbýli, 36 samningar um eignir í sérbýli og 2 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 1.629 milljónir króna og meðalupphæð á samning 22,3 milljónir króna. Af þessum 73 var 51 samningur um eignir í Reykjanesbæ. Þar af var 31 samningur um eignir í fjölbýli, 18 samningar um eignir í sérbýli og 2 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 1.138 milljónir króna og meðalupphæð á samning 22,3 milljónir króna.

Rétt er að taka fram að meðalupphæð kaupsamnings er ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar, misgamlar o.s.frv.