Raddlist og GeoSilica fá markaðsstyrki frá Tækniþróunarsjóði

Tvö Suðurnesjafyrirtæki hafa fengið vilyrði fyrir styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís, GeoSilica og Raddlist. GeoSilica sótti um styrk til markaðssetningar kísilsteinefnis fyrirtækisins á innlendum markaði og Raddlist til markaðssóknar smáforrita fyrirtækisins til eflingar læsis. Forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja verða boðaðir til samningarfundar við Rannís á næstunni samkvæmt tilkynningu Tækniþróunarsjóðs.
Raddlist ehf.sinnir mennta- og heilbrigðisþjónustu auk útgáfu- og þróunarstarfsemi og GeoSilica hefur það markmið að framleiða hágæða kísilríkar heilsuvörur, úr jarðhitavatni jarðvarmavirkjana á Íslandi.
Markaðsstyrkir eru eingöngu fyrir fyrirtæki sem eru að komast á legg og eru með veltu undir 300 milljónum króna, segir á heimasíðu Rannís. Verkefni á vegum Tækniþróunarsjóðs eru styrkt til eins árs, að hámarki 10 milljónir króna. Gerð er krafa um að lágmarki 50% mótframlag umsækjenda af heildarkostnaði við verkefnið.