Nýjast á Local Suðurnes

Raddlist og GeoSilica fá markaðsstyrki frá Tækniþróunarsjóði

Skjáskot af einu af smáforritum Raddlistar

Tvö Suðurnesjafyrirtæki hafa fengið vilyrði fyrir styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís, GeoSilica og Raddlist. GeoSilica sótti um styrk til markaðssetningar kísilsteinefnis fyrirtækisins á innlendum markaði og Raddlist til markaðssóknar smáforrita fyrirtækisins til eflingar læsis. Forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja verða boðaðir til samningarfundar við Rannís á næstunni samkvæmt tilkynningu Tækniþróunarsjóðs.

Raddlist ehf.sinnir mennta- og heilbrigðisþjónustu auk útgáfu- og þróunarstarfsemi og GeoSilica hefur það markmið að framleiða hágæða kísilríkar heilsuvörur, úr jarðhitavatni jarðvarmavirkjana á Íslandi.

Markaðsstyrkir eru eingöngu fyrir fyrirtæki sem eru að komast á legg og eru með veltu undir 300 milljónum króna, segir á heimasíðu Rannís. Verkefni á vegum Tækniþróunarsjóðs eru styrkt til eins árs, að hámarki 10 milljónir króna. Gerð er krafa um að lágmarki 50% mótframlag umsækjenda af heildarkostnaði við verkefnið.