Nýjast á Local Suðurnes

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar samþykkt – Framlegð hefur aukist en niðurstaðan er óviðunandi

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar árin 2016-2019 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á bæjarstjórnarfundi í gær. Fram kom í bókun meirihlutans að þær aðhaldsaðgerðir sem ráðist var í á síðasta ári  hafi skilað þeim árangri að framlegð frá rekstri hafi aukist talsvert en vegna mikilla fjármagnsgjalda sé niðurstaðan óviðunandi.

Allir flokkar lögðu fram bókanir á fundinum, þær má finna hér fyrir neðan:

Bókun Beinnar leiðar, Frjáls afls og Samfylkingar:

Fjárhagsáætlun 2016 – 2019 sem nú er lögð fram er háð mikilli óvissu þar sem Reykjanesbær hefur verið í viðræðum við kröfuhafa bæjarins og er þeim viðræðum ekki lokið. Viðræðurnar hafa snúist um niðurfærslu lána með það að markmiði að skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga náist fyrir árslok 2022. Gert var ráð fyrir að viðræðum við kröfuhafa yrði lokið fyrir árslok 2015 en hugsanlegt er að þær muni dragast.Takist ekki samningar við kröfuhafa er enn til staðar óleyst fjárþörf sem finna verður lausn á en sú fjárþörf liggur fyrst og fremst hjá Reykjaneshöfn.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði um 964,7 m.kr. fyrir bæjarsjóð og 3.905 m.kr. fyrir samstæðu. Rekstrarhalli bæjarsjóðs, að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða, verður um 546,7 m.kr. og rekstrarhalli samstæðu verður um 236,1 m.kr.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2017 gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði um 1.038,9 m.kr. fyrir bæjarsjóð og 3.647,4 m.kr. fyrir samstæðu. Rekstrarhalli bæjarsjóðs, að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða, verður um 550,4 m.kr. og rekstrarhalli samstæðu verður um 749,3 m.kr.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2018 gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði um 1.051,4 m.kr. fyrir bæjarsjóð og 3.921,6 m.kr. fyrir samstæðu. Rekstrarhalli bæjarsjóðs, að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða, verður um 428,4 m.kr. og rekstrarhalli samstæðu verður um 470 m.kr.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2019 gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði um 689,2 m.kr. fyrir bæjarsjóð og 3.717,9 m.kr. fyrir samstæðu. Rekstrarhalli bæjarsjóðs, að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða, verður um 673,4 m.kr. og rekstrarhalli samstæðu verður um 869,8 m.kr.

Þær aðhaldsaðgerðir sem ráðist var í á síðasta ári  hafa skilað þeim árangri að framlegð frá rekstri hefur aukist talsvert en vegna mikilla fjármagnsgjalda er niðurstaðan óviðunandi. Því er  nauðsynlegt að ásættanleg niðurstaða náist í viðræðum við kröfuhafa sem leiði til þess að hægt sé að halda áfram að veita þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir nú þegar og íbúar eiga rétt á.

Framsóknarflokkur lagði fram eftirfarandi bókun:

Eins og kemur fram í greinagerð með fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2016 til 2019 er þessi fjögurra ára áætlun háð mikilli óvissu.
Fjárhagsvandi Reykjanesbæjar er fordæmalaus. Viðræður við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Fasteignar og Reykjaneshafnar hafa staðið yfir í 18 mánuði án þess að ná niðurstöðu. Kröfuhafar og bæjarstjórn hafa gert þá sanngjörnu kröfu að ríkissjóður komi að málum vegna Helguvíkur þar sem fjárfestingageta bæjarsjóðs er ekki fyrir hendi. Fordæmin eru hjá ríkissjóði í öðrum verkefnum tengdum stóriðjuhöfnum eins og Grundartanga og Húsavík.

Ljóst er að vandinn er það stór að hann verður ekki leystur með auknum álögum á íbúa og tíminn er að renna frá okkur ef  kröfunni er ekki mætt um aðkomu ríkissjóðs, þá er einsýnt að skipuð verði fjárhaldsnefnd af hálfu Innanríkisráðuneytisins yfir rekstur bæjarins með ófyrirséðum afleiðingum fyrir kröfuhafana og íbúa. Að mínu mati er betra að bæjarfélagið nái sjálft samningum við kröfuhafa frekar en að láta það verkefni í hendur fjárhaldsnefndar.

Síðastliðið haust var algjör samstaða í okkar hópi um ,,Sóknina“ og um síðustu þriggja ára áætlun líka. Ég tel mikilvægt að bæjarfulltrúar standi saman öll sem eitt um það stóra verkefni sem við höfum hafið og er framundan að leysa úr fjárhagsvandræðum bæjarins. Ég hef áður rætt í ræðu og riti og bókað um ástæður fjárhagsvandans og margra ára óstjórn í fjármálum bæjarins og vísa til þeirra hér. Við verðum hvar í flokki sem við stöndum að leggjast á eitt að tryggja aðkomu ríkisins að frekari framkvæmdum í Helguvík þannig að höfnin verði sú styrka stoð undir atvinnulíf og endurreisn Reykjanesbæjar sem vonir standa til.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu einnig fram bókun:

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar sem nú er til afgreiðslu sýnir að áfram eru tekjur sveitarfélagsins of lágar til að standa undir rekstri og skuldbindingum. Barátta síðustu ára um betur launuð störf, svo sem í Helguvík, hefur ekki skilað sér ennþá og áhyggjuefni er að aukin þátttaka fólks á atvinnumarkaði, minnkandi atvinnuleysi og hærra útsvarshlutfall virðist ekki vera að skila sér nema að litlu leyti sem aukning á tekjum Reykjanesbæjar. Ljóst er að greina þarf rækilega hvers vegna tekjuaukningin er ekki í réttu samhengi við hækkandi útsvar, fjölgun íbúa og fjölgun starfa.

Fjárhagsáætlun ársins 2016 er gerð í góðri sátt bæjarfulltrúa og er lögð fram með stuðningi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Samhliða fjárhagsáætlun næsta árs er lögð fram áætlun áranna 2017 – 2019. Eins og fram kemur í greinargerð með fjárhagsáætlun er hún háð mikilli óvissu vegna þess að yfirstandandi viðræður við kröfuhafa hafa ekki enn leitt til neinnar niðurstöðu. Ljóst er að gera þarf verulegar breytingar á fjárhagsáætlun áranna 2017 – 2019 þegar viðræðunum er lokið, óháð niðurstöðu þeirra. Er afgreiðsla á fjárhagsáætlun þessara ára því gerð í þeim tilgangi að uppfylla sveitarstjórnarlög um framlagningu áætlunar til næstu 4 ára þó fyrir liggi að áætlun þessara ára muni taka verulegum breytingum á næstu mánuðum.