Nýjast á Local Suðurnes

750 milljón króna tap á rekstri Reykjanesbæjar

Skuldir Reykjanesbæjar munu halda áfram að hækka, en þær voru um 40,7 milljarðar í lok árs 2014 en gert er ráð fyrir að þær muni vera um 48,6 milljarðar í lok árs 2019. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2016 til 2019, sem gefin var út fyrir helgi.

Áætlunin gerir þó ráð fyrir því að skuldahlutfall bæjarins muni lækka úr 253,6% sem það var í lok árs 2014 og mun verða 236,7% í lok árs 2019. Þessi lækkun á skuldahlutfalli kemur til vegna aukningar í tekjum, en gert er ráð fyrir að heildartekjur bæjarins munu fara úr 16,1 milljarði árið 2014 í 20,5 milljarða árið 2019.

Samkvæmt áætluninni mun sveitarfélagið halda áfram að skila tapi en tapið var rúmlega 1,7 milljarður árið 2014. Gert er ráð fyrir að tap á rekstri bæjarins verði 752 milljónir árið 2015, tæpar 600 milljónir árið 2016 og rekstrartap verði um 233 milljónir árið 2019.

Samkvæmt áætlun bæjarins mun eigið fé bæjarins verða neikvætt á árinu 2017. Eigið fé bæjarins var um 2,3 milljarðar í lok árs 2014 og mun samkvæmt áætlun bæjarins verða 122 milljónir í lok árs 2016.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar segist í samtali við Viðskiptablaðið gera ráð fyrir því að áætlunin muni taka töluverðum breytingum eftir að samningum við kröfuhafa er lokið.