Nýjast á Local Suðurnes

Fjármögnun Thorsil á lokametrunum – Rekstrarhagnaður 60 milljónir á síðasta ári

Eigið fé Thorsil, sem hyggur á byggingu kísilverksmiðju í Helguvík, nam 453 milljónum í lok árs 2015, samanborið við 352 milljónir í lok árs 2014. Eignir Thorsil í árslok 2015 námu tæpum 488 milljónum samanborið við 386 milljónir í lok árs 2014. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins nam 59 milljónum árið 2015 og 68,1 milljón árið 2014.

Þá mun fjármögnun á kísilveri fyrirtækisins í Helguvík vera á lokametrunum, að því er heimildir Viðskiptablaðsins herma. DV greindi frá því á dögunum að viðræður séu í gangi um að auka hlutafé Thorsil um 13 milljarða króna með samningum við lífeyrissjóði, bandarískan fjárfesti og innlenda fag- og einkafjárfesta.

Íslenskir lífeyrissjóðir og fjárfestingafyrirtækið Equity Asset Group, munu leggja til tæplega 9 milljarða af þeirri upphæð til verkefnisins, en eigendur Thorsil og aðrir íslenskir fjárfestar hafa svo skuldbundið sig fyrir því hlutafé sem upp á vantar og búið er að ganga frá lánasamningum við Arion banka, Íslandsbanka og einn erlendan banka.