Nýjast á Local Suðurnes

Myllarnir úr Myllubakkaskóla sigurvegarar First Lego – Keppa til úrslita í Noregi

Mynd: Háskóli Íslands

Liðið Myllarnir úr Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ bar sigur úr býtum í tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem haldin var í Háskólabíói í gær. Liðið vann sér um leið þátttökurétt í úrslitakeppni FIRST LEGO League Scandinavia sem haldin verður í Bodø í Noregi í næsta mánuði.

Á hverju ári er keppninni valið sérstakt þema og að þessu sinni var það samstarf manna og dýra (e. Animal Allies). Meðal verkefna keppenda var að forrita vélmenni úr tölvustýrðu Legoi til að leysa tiltekna þraut sem tengdist þemaverkefninu. Þá áttu keppendur að gera vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem einnig er tengt þemanu og enn fremur þurftu liðin að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennin. Auk þess horfði dómnefnd til liðsheildar.

Þegar upp var staðið í gær og stigin í keppninni höfðu verið talin reyndust Myllarnir sigurvegar í keppninni. Liðið er skipað átta nemendum úr Myllubakkaskóla sem voru öll að taka þátt í keppninni í fyrsta sinn. Þetta er jafnframt fyrsti sigur Myllubakkaskóla í keppninni. Þess má geta að liðið fékk einnig verðlaun fyrir besta rannsóknarverkefnið.

Háskóli Íslands heldur utan um keppnina en helsti bakhjarl hennar er Nýherji.