Nýjast á Local Suðurnes

Nettó opnar fyrstu lágvöruverðsverslun landsins á netinu

Verslun Nettó við Krossmóa

Nettó brýtur blað í sögu verslunar á Íslandi, þegar fyrsta lágvöruverðsverslunin á netinu verður formlega opnuð á morgun, þann 6.september, klukkan 10.00 inni á Aha.is. Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa segir netverslunina rökrétta þróun við auknum kröfum viðskiptavina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birt er á vef VB.is.

„Við erum meðvituð um að það skiptir öllu máli að vera á tánum og okkur finnst rökrétt skref að bjóða viðskiptavinum okkar uppá þennan valkost. Úrvalið í netversluninni eru á pari við þau sem eru í verslunum okkar og verðin eru nákvæmlega þau sömu,“ segir Gunnar í tilkynningunni.

Netverslun á Íslandi er ekki ný af nálinni en þetta er í fyrsta sinn sem lágvöruverðsverslun býður uppá slíka þjónustu. Viðskiptavinum Nettó gefst kostur á að gera öll sín matarinnkaup á netinu. Viðskiptavinir geta sótt vörurnar í verslanir Nettó, þar sem þær hafa verið teknar saman, án nokkurs auka kostnaðar. Einnig geta þeir fengið vörurnar sendar heim gegn vægu sendingargjaldi.

Ekki er þó hægt að notast við netverslun Nettó á Suðurnesjum, en til að byrja með verður hægt að sækja vörurnar í verslun Nettó í Mjódd eða fá þær heimsendar á höfuðborgarsvæðinu.