Rafræn stjórnsýsla aukin og dregið úr útgáfu prentaðs efnis
Reykjanesbær hefur um langt skeið lagt áherslu á rafræna stjórnsýslu þ.e. að gera íbúum kleift að afgreiða sig sjálfir og fá upplýsingar á sem sjálfvirkastan hátt í gegnum netið.
Í dag fer gríðarlegt magn af pappír í gegnum allt kerfið. Sömu erindin og tölvupóstarnir eru prentuð út aftur og aftur, stimpluð, skráð og skjöluð með tilheyrandi fjölda handtaka sem taka sinn tíma. Ætlunin er að reyna að lágmarka og einfalda öll þessi ferli eins og hægt er og auka sjálfvirkni með enn betri rafrænni stjórnsýslu. Um leið þarf að þjálfa og kenna starfsfólki á breytt umhverfi og það tekur líka tíma. Þessi áform verða betur kynnt síðar, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ
Dregið úr útgáfu prentaðs efnis
Með aukinni rafrænni stjórnsýslu verður hægt að draga úr útgáfu prentaðs efnis. Bæklingar, form, blöð og bækur munu því í nánustu framtíð fyrst og fremst liggja á netinu og þeir sem vilja eða þurfa geta þá prentað út hver fyrir sig. Þessu fylgir ekki aðeins mikið hagræði heldur gefst einnig tækifæri til að uppfæra, bæta og laga allt efni miklu hraðar og hafa til reiðu á fleiri tungumálum.