Varað við slæmu veðri næstu daga – Spáin þó góð fyrir gamlárskvöld

Veðurstofa Íslands varar við stormi, meðalvindi yfir 20 metrum á sekúndu, um allt land á morgun, veðrinu mun fylgja talsverð rigning með asahláku um landið sunnanvert og er fólk hvatt til að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Spáin fyrir miðvikudag gerir ráð fyrir suðvestanstormi á landinu og éljagangi. Miklar sviptingar verða áfram í veðrinu næstu daga og koma kröftugar lægðir nú á færibandi samkvæmt hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings eða um það bil ein á dag allt fram á gamlársdag.
„Það mun hvessa og hlýna skarpt hjá okkur í kvöld og ætlar morgundagurinn að verða bæði stormasamur og hlýr. Þegar talsvert er af snjó á jörðu er viðbúið að það geri asahláku og á það við um stærstan hluta landsins á morgun. Við ættum því öll að taka okkur til og sjá til þess að yfirborðsvatn eigi greiða leið niður í frárennsliskerfin svo ekki skapist óþarfa vatnselgur á götum,“ segir ennfremur á vef Veðurstofunnar.
Þótt árið ætli að enda á nokkrum hressilegum vetrarlægðum sé engu að síður útlit fyrir að gamlárskvöld verði nokkuð gott. „Hæðarhryggur ætti að byggja sig upp yfir landinu á síðasta degi ársins með tilheyrandi léttviðri, ef spár ganga eftir. Kannski verður þar um að ræða hið fullkomna flugeldaveður. Allt er gott sem endar vel.“