Mennirnir sem féllu í sjóinn Íslendingar

Mennirnir tveir sem féllu í sjóinn út af Njarðvíkurhöfn á laugardagskvöld voru báðir Íslendingar. Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is en annar þeirra var úrskurðaður látinn við komu á sjúkrahús.
Úlfar segir að líðan mannsins sem lifði slysið af sé eftir atvikum góð. Hann var með meðvitund þegar viðbragðsaðilar náðu honum á land og því var hægt að ræða við hann strax um kvöldið um málsatvik.
Mennirnir voru báðir á sjötugsaldri og voru á fimm metra sportbát í skemmtisiglingu. Þeir enduðu utan borðs er báturinn var um hálfan kílómetra frá höfninni.