Nýjast á Local Suðurnes

Segir samning Reykjanesbæjar og United Silicon ólögmætan og ekki eiga sér hliðstæðu í stjórnsýslunni

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Drög að skýrslu um úttekt á stjórnsýsluháttum Reykjanesbæjar vegna málefna United Silicon var á dögunum kynnt bæjarráði Reykjanesbæjar og síðan rædd í bæjarstjórn í gær.

Bæjarfulltrúi Miðflokksins, Margrét Þórarinsdóttir, segir að samkvæmt skýrslunni sé ljóst að afdrifarík mistök hafi verið gerð af hálfu starfsfólks og stofnanna Reykjanesbæjar við afgreiðslu umsókna og eftirlits með framkvæmdum fyrirtækisins.

Þá segir Margrét að mannvirkjalög og byggingareglugerðir hafi verið brotin þegar gerður var samningur á milli fyrirtækisins og Reykjanesbæjar um að umsóknir fyrirtækisins um byggingarleyfi yrðu afgreiddar á innan við viku.

Margrét lagði fram bókun um málið á fundi bæjarstjórnar í gær, sem lesa má hér fyrir neðan. Skýrslan sem um ræðir hefur ekki verið gerð aðgengileg.

“Eins og fram kemur í skýrslunni hafði Reykjanesbær skuldbundið sig með sérstökum samningi við United Silicon að afgreiða umsóknir um byggingarleyfi innan 6 virka daga. Slíkur samningur er ólögmætur og á sér ekki hliðstæðu í stjórnsýslunni. Skýrsluhöfundar leggja ríka áherslu á þetta. Með því voru mannvirkjalög og byggingagerðarreglugerð brotin. Hafa ber í huga að þessi ólögmæti samningur skrifast fyrst og fremsta á meirihluta bæjarstjórnar á þeim tíma.

Embættismenn á vegum sveitarfélagsins koma ekki að slíkri samningagerð, ef svo ólíklega vildi til, væri það aldrei gert nema að fyrirmælum meirihluta bæjarstjórnar.

Skýrsluhöfundar benda réttilega á að sá stutti tími sem afgreiða þurfti umsóknir United Silicon hafi aukið líkur á því að mistök yrðu gerð í afgreiðslu umsókna og að eftirlit yrði af skornum skammti. Það kom síðan á daginn að mörg afdrifarík mistök áttu sér stað af hálfu starfsmanna og stofnana Reykjanesbæjar.

Niðurstaða skýrslunnar er sláandi og áfellisdómur yfir stjórnsýslu bæjarins. Afleiðingarnar voru afdrifaríkar og öllum bæjarbúum kunnar. Ábyrgðin er fyrst og fremst pólitísk, það má glöggt sjá í áðurnefndum ólögmætum 6 daga samningi. Brottrekstur þáverandi byggingafulltrúa var fyrst og fremst táknrænn. Ábyrgðin er hjá þáverandi meirihluta sem sá um daglegan rekstur bæjarfélagsins og var æðsti yfirmaður starfsliðs.“