Nýjast á Local Suðurnes

Vilja koma ofni númer tvö í gang sem fyrst – Öll framleiðsla United Silicon seld

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Kísilverksmiðja United Silicon hóf formlega framleiðslu þann 13. nóvember síðastliðinn og er búist við að fyrstu afurðirnar komi úr þessari fyrstu kísilmálmverksmiðju landsins síðar í vikunni. Verksmiðjan hefur verið töluvert til umræðu á samfélagsmiðlunum, vegna mikillar brunalyktar og mengunar sem liggur yfir hluta Reykjanesbæjar eftir að framleiðsla hófst.

Öll framleiðsla úr þessum fyrsta ofni verksmiðjunnar hefur þegar verið seld og segir Helgi Björn yfirverkfræðingur kísilmálmverksmiðjunnar, í samtali við Morgunblaðið, vonast til að hægt verði að koma ofni númer tvö í gagnið sem fyrst.

„Markaðurinn er ágætur en verðið er ekki hátt,“ segir Helgi Björn í viðtali við Morgunblaðið.

„Raunar erum við búin að selja alla framleiðsluna úr þessum fyrsta ofni. Afurðirnar fara til Evrópu og einnig til Bandaríkjanna.“

„Vitað er að hagkvæmara er að reka saman tvo ofna en einn og vonandi verði hægt að bæta honum við sem fyrst. Hins vegar verði fyrst að koma fyrsta ofninum í jafnan og góðan rekstur og síðan að sjá hvernig kísilmarkaðurinn þróast.“