Nýjast á Local Suðurnes

Áhætta og álag á Brunavarnir Suðurnesja margfaldast með stækkun Keflavíkurflugvallar

Allt tiltækt lið slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja (BS) var kallað út vegna elds í þaki flugeldhúss IGS á Keflavíkurflugvelli um hádegisbilið í gær, greiðlega gekk að slökkva eldinn sem var ekki mikill.

Í kjölfarið komu upp umræður um útkallsgetu slökkviliðs BS á samfélagsmiðlunum, þar sem meðal annars var rætt um hvort BS gæti brugðist við stórbruna á Keflavíkurflugvelli og á starfssvæði sínu í Reykjanesbæ, kæmi slíkt upp á sama tíma. Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri, sagði svo vera í samtali við Suðurnes.net um málið, enda kallaði stórbruni á flugvellinum mögulega á að almannavarnarástandi yrði lýst yfir.

“Við  teljum okkur nokkuð vel búnir til þess að fást við  verkefni á flugvellinum,  en þrátt fyrir það er umfang bygginga og starfssemi á Keflavíkurflugvelli slík að við munum þurfa aðstoð þegar um mjög stóra bruna er að ræða, en mjög stórir brunar eða slys á Keflavíkurflugvelli geta einnig leitt til þess að almannavarnarástandi verði lýst og þá fer lögreglustjóri með stjórn og bjargir koma víða að.” Sagði Jón

Jón sagði einnig að hætta og álag á BS hafi margfaldast með stækkun Keflavíkurflugvallar og að unnið sé að gerð áhættumats og áhættugreiningar varðandi Keflavíkurflugvöll.

“Á undanförnum árum hefur orðið gjörbreyting á Keflavíkurflugvelli byggingar og umferð hafa margfaldast,  við þá miklu uppbyggingu  hefur áhætta og álag á  Brunavarnir Suðurnesja bs margfaldast.

Til þess að bregðast við þessum breytingum  og  gera sé grein fyrir mjög aukinni áhættu á flugvellinum hefur Brunavarnir Suðurnesja b.s gert samning við  ráðgjafafyrirtækið Inspectionem um gerð áhættumats og áhættugreiningu á Keflavíkurflugvelli, sem síðan verður notuð  til þess að ákveða með hvaða hætti uppsett afl Brunavarna Suðurnesja bs og eftir atvikum fyrirtækja þarf að vera.” Sagði Jón.

Aðspurður um hvort slökkvilið BS réði við stórbruna á Keflavíkurflugvelli og í Reykjanesbæ á sama tíma þá sagði Jón að slíkt færi eftir umfangi, en bætti við að BS væri með gagnkvæman samstarfssamning við slökkviliðið í Grindavík, sem veitti þá aðstoð auk þess  sem fjölgað hafi verið á vöktum hjá BS í samræmi við fjölgun útkalla.

“Varðandi það hvort við ráðum við eldsvoða á tveimur stöðum í einu þá fer það eftir umfangi þeirra, en ef á þarf að halda þá erum við með gagnkvæman samstarfssamning við Slökkvilið Grindavíkur þar sem við sendum hvorir öðrum aðstoð eftir aðstæðum hverju sinni.” Sagði Jón

“Verkefni B.S eru ansi viðamikil og eru útköll á hverju ári um 3.300 sem er gríðarlega mikil aukning á fáum árum,  en árið 2012 voru útköll um 2.000.  Til þess að bregðast við þessari miklu aukningu tók stjórn B.S ákvörðum um að fjölga á vöktum þannig að í dag eru 6 skráðir á vakt en þessi fjöldi getur farið niður í 4 á vakt í sumar og vetrarorlofum.” Sagði Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja.