Nýjast á Local Suðurnes

Heitar umræður í bæjarstjórn um hækkun launa sviðsstjóra – “Getur skaðað mig pólitískt”

Hækkun launa sviðsstjóra Reykjanesbæjar mun ganga í gegn eftir að tillaga Margrétar Þórarinsdóttur, bæjarfulltrúa Miðflokksins, um að hækkunin yrði dregin til baka var felld. Á fundi bæjarstjórnar kom fram að launahækkunin er tilkomin að beiðni sex sviðsstjóra sveitarfélagsins.

Miklar umræður sköpuðust um málið í rúma klukkustund á fundi bæjarstjórnar í dag, en í þeim kom meðal annars fram að launahækkunin hafi verið samþykkt á fundi bæjarráðs þann 24. október síðastliðinn án athugasemda.

Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar, sagðist meðal annars vera ábyrgur fyrir þessari samþykkt og standa við það, hann sagði jafnframt að þessi ákörðun væri frekar til þess fallin að skaða hann pólitískt en að afla honum vinsælda. Þá sagðist Guðbrandur skilja rök sviðsstjóranna sex sem eru á þá leið að jafna bæri laun við sambærileg störf hjá öðrum stórum sveitarfélögum.

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar, hafði á orði að vissulega væri um há laun að ræða en að laun hjá Reykjanesbæ yrðu að vera sambærileg við það sem í boði væri hjá öðrum sveitarfélögum.