Nýjast á Local Suðurnes

Krabbamein vegna lifnaðarhátta tíðari á Suðurnesjum – Fá tilfelli vegna mengunar

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Hlutfallslega fleiri krabbamein greinast á Suðurnesjum vegna slæmra lifnaðarhátta en annars staðar á landinu. Reykingar og ofþyngd vega þar þyngst. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem Krabbameinsfélagið gerði nýverið.

Rannsókninni var meðal annars ætlað að kanna hvort vatnsbólsmengun af völdum hersetuliðsins í Keflavík hafi leitt til aukinnar tíðni krabbameina á undanförnum áratugum.

Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu, þar sem segir frá niðurstöðum rannsóknarinnar, kemur fram að íbúar Suðurnesja hafi í áratugi haft grunsemdir um að vatnsmengun af völdum varnarliðsins valdi krabbameinum. 

„Í fyrsta lagi var kannað hvort til staðar hefði, á tímum Varnarliðsins, verið krabbameinsvaldandi efnamengun í vatnsbólum Keflavíkur og Njarðvíkur. Einnig að hve miklu leyti hún gæti tengst nýgengi krabbameina á svæðinu allt fram til ársins 2010, eða 20 árum eftir að ný vatnsból að Lágum voru tekin í notkun árið 1991 og þau gömlu aflögð. Í öðru lagi var athuguð tíðni tiltekinna þekktra lífsstílstengdra krabbameinsvalda í Reykjanesbæ, hún borin saman við önnur landsvæði og tengsl við krabbameinsnýgengið könnuð,“ segir í inngangi rannsóknarniðurstaðna.

Þá segir enn fremur: „Áætlað er að fjögur krabbameinstilvik sem greindust á tímabilinu 1955-2010 tengist […] menguninni.“

Ekki þykir líklegt að fleiri krabbamein af völdum mengunar, sem rekja má til hersetunnar, greinist þar sem ný vatnsból hafa verið tekin til notkunar.

Að meðaltali reyktu 32% karla og 34% kvenna daglega í þeim bæjum sem nú tilheyra Reykjanesbæ, árin 1991-2000. Á sama tímabili reyktu að meðaltali 27% karla á höfuðborgarsvæðinu og 26% kvenna. Annars staðar á landinu var hlutfallið 26% hjá körlum og 25% hjá konum. 

Á árunum 2011-2020 greindust 140 íbúar Reykjanesbæjar með krabbamein sem talið er að megi rekja til reykinga. Á sama tímabili greindust 47 með krabbamein sem rakið var til offitu. Samanlagt hlutfall krabbameinstilfella sem tengdist þessum krabbameinsvöldum á rannsóknartímabilinu var 6% hærra en annars staðar á landinu. Sá munur er svo tölfræðilega marktækur, að því er fram kemur í rannsókninni.