Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjabær hefur ekkert að segja varðandi áformuð búsetuúrræði fyrir flóttafólk

Samskipti við Vinnumálastofnun varðandi áform um búsetu umsækjenda um alþjóðlega vernd í Suðurnesjabæ voru til umræðu á bæjarráðsfundi í Suðurnesjabæ í lok ágústmánaðar en Vinnumálastofnun hefur tilkynnt að unnið sé að því að koma upp búsetuúrræði í sveitarfélaginu.

Á fundinum kom fram að bæjarráð hafi áhyggjur af því að með þessu muni verða miklar áskoranir gagnvart innviðum sveitarfélagsins og að sú þjónusta sem sveitarfélagið heldur úti fyrir íbúana muni ekki standa undir því að fá fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd til búsetu í sveitarfélaginu.

Bókun bæjarráðs má sjá í held hér:

Í ljósi þess að Vinnumálastofnun hefur tilkynnt að unnið sé að því að koma upp búsetu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Suðurnesjabæ, ítrekar bæjarráð bókun bæjarráðs frá 12. júlí 2023 sem komið var á framfæri við ráðherra og fleiri aðila í stjórnkerfinu. Þar koma m.a. fram áhyggjur bæjarráðs af því að með þessu muni verða miklar áskoranir gagnvart innviðum sveitarfélagsins og að sú þjónusta sem sveitarfélagið heldur úti fyrir íbúana muni ekki standa undir því að fá fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd til búsetu í sveitarfélaginu. Þá benti bæjarráð á að Suðurnesjabær annast það verkefni að veita fylgdarlausum börnum skjól og þjónustu, sem felur í sér mikla áskorun sérstaklega fyrir félagsþjónustu og barnavernd. Bæjarráð ítrekar áhyggjur af þessum einhliða áformum ríkisins og lýsir vonbrigðum með að afstaða sveitarfélagsins virðist ekki hafa nein áhrif í því sambandi.

Mynd: Instagram / Suðurnesjabær