Nýjast á Local Suðurnes

Ráðuneyti hefur samþykkt nafnið Suðurnesjabær

Samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið hefur samþykkt að nafn sameinaðs sveitarfélags Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs verði Suðurnesjabær.  Í bréfi frá ráðuneytinu kemur fram að nafnið muni verða staðfest, verði samþykkt sveitarfélagsins breytt á þann hátt með formlegum hætti í samræmi við ákvæði í sveitarstjórnarlögum.

Bæjarstjórn mun breyta samþykkt um stjórn sveitarfélagsins fyrir jól, þar sem nafnið Suðurnesjabær verður formlega samþykkt af bæjarstjórn.  Eftir það mun Samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið staðfesta breytinguna og hún birt sem reglugerð í Stjórnartíðindum.  Formleg notkun á nýju nafni sveitarfélagsins hefst eftir að það hefur verið staðfest og birt.