Nýjast á Local Suðurnes

Urta Islandica þróar steinefnaríka drykki úr köldum jarðsjó

Urta Islandica vinnur nú að því að þróa nýja vörulínu sem felst í því að framleiða ferska, bragðgóða og steinefnaríka drykki úr köldum jarðsjó, með og án kolsýru. Fyrirtækið, sem staðsett er í Reykjanesbæ, var eitt af 70 fyrirtækjum sem sóttu um að komast í viðskipta- og nýsköpunar hraðalinn til „Sjávar og sveita“ og var valið ásamt 9 öðrum fyrirtækjum þar inn. Í þessum hraðli er leitað er eftir nýjum lausnum sem auka sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi.

Hugmyndafræðin er sú að koma fram með vöru sem er lík íslenska vatninu, hrein og fersk, en steinefnarík.  Hlutfall steinefna í sjó er áþekkt steinefnahlutfalli blóðs í mannslíkamanum sem gerir drykkina að spennandi leið til steinefnainntöku á náttúrulegan hátt.

Fyrstu vörutegundirnar sem fara í framleiðslu verða:

  • Ómeðhöndlaður jarðsjór í fullum styrkleika með 30.000ppm/ltr steinefni (Hybertonic) sem hentar til inntöku sem skot, sem hráefni í matargerð ofl.
  • Meðalsterkur, afsaltaður sjór 9.000ppm/ltr steinefni, hentar til að endurreisa steinefnabúskap líkamans eftir áreynslu, veikindi eða áfengisneyslu (Isotonic)
  • Léttur, afsaltaður sjór 2.000ppm/ltr steinefni, góður svalandi drykkur sem viðheldur og jafnar steinefnabúskap líkamans.  Góður til daglegrar drykkju. (Hypotonic)

Hugmyndavinna að bragðbættum drykkjum er í vinnslu og horfir fyrirtækið þá sérstaklega til sérþekkingar sinnar á íslenskum jurtum og berjum.

Í höfuðstöðvum fyrirtækisins er nú unnið hörum höndum við uppsetningu á átöppunarlínu, afsöltunarferli, hönnun og umbúðarlausnum.  Af umhverfissjónarmiðum mun fyrirtækið aðeins bjóða vöruna í margnota glerflöskum á almennan neytendamarkað.