Nýjast á Local Suðurnes

Ljósanótt: Lög unga fólksins – Þrjár sýningar í Andrews leikhúsinu

Með blik í auga setur upp sýninguna Lög unga fólksins á Ljósanótt 2015 en sýningar hópsins eru orðnar ómissandi hluti af dagskrá hátíðarinnar.

Að þessu sinni verður horft til þessa vinsæla útvarpsþáttar og skoðuð sú togstreita og þau átök sem urðu milli þeirra ungu og hinna sem eldri voru. „Hvar er Tom Jones?“ heyrðist þá iðulega þegar þau eldri könnuðust ekki við lögin sem spiluð voru. Flutt verða lög frá 1965 – 1982 og tímaferðalagið heldur áfram.

Söngvarar sýningarinnar eru stuðmaðurinn Egill Ólafsson, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Pétur Örn Guðmundsson og Stefanía Svavarsdóttir. Auk þess má nefna stórhljómsveit undir stjórn Arnórs B. Vilbergssonar en sögumaður er Kristján Jóhannsson.

Haldnar verða þrjár sýningar í Andrews leikhúsinu á Ásbrú, frumsýning verður miðvikudaginn 2. september og tvær sýningar á sunnudaginn 6. september kl. 16 og 20.