Nýjast á Local Suðurnes

Nóg af stigum eftir til að ná Pepsí-deildarsæti – Grindavík – Víkingur Ó í kvöld

Það verður sannkallaður stórleikur á Grindavíkurvelli í kvöld og í raun hálfgerður úrslitaleikur fyrir Grindvíkinga. Topplið 1. deildar karla í knattspyrnu, Víkingur frá Ólafsvík, kemur í heimsókn en með sigri í kvöld verða Grindvíkingar aðeins 4 stigum frá úrvalsdeildarsæti. Það má í raun segja að allt sumarið sé undir í þessum leik.

Það hefur gengið á ýmsu hjá liði Grindavíkur í sumar, skipst hafa á skin og skúrir og fyrir nokkrum umferðum voru allir búnir að afskrifa liðið en mótið er hvergi nærri búið og nóg eftir af stigum í pottinum. Óli Stefán Flóventsson, annar af þjálfurum liðsins, birti þennan pistil á Facebook síðu knattspyrnudeildarinnar þar sem hann kallar eftir ykkar stuðningi í kvöld:

„Jæja góðir Grindvíkingar.

Nú er heldur betur að styttast í þessu hjá okkur meistaraflokki karla en við eigum fjóra leiki eftir og þar af þrjá heimaleiki.
Í kvöld kl 18.00 mætum við efsta liði deildarinnar Víkingi frá Ólafsvík. Víkingarnir þurfa sigur til að vinna deildina og þar með sæti í efstu deild á næsta ári.

Staðan í deildinni er bara þannig að allt getur gerst. Það er búið að afskrifa okkur nokkrum sinnum í sumar en alltaf höfum við náð að koma til baka. Með sigri í kvöld náum við fjórða sætinu aftur og erum þá fjórum stigum frá úrvalsdeildarsæti þegar að þrír leikir eru eftir.

Ég hef í sumar verið að kalla eftir stemmningu á heimaleikjum og hefur það verið vaxandi, sjálfsagt eftir gegni liðsins líka. Það er þó þannig að strákarnir hafa talað um mikin mun á því að spila þegar fólkið okkar er með. Í kvöld er ekkert um að vera annað en þessi leikur. Man Utd, Liverpool eða Arsenal eru ekki að spila þannig að ekki er afsökun þar. Núna væri ég til í að sjá alla sanna stuðningsmenn mæta og búa til bestu stemmningu sem myndast hefur í sumar. Við viljum ekki sjá Víkingana fagna hér á okkar heimavelli. Við viljum eiga raunhæfan möguleika á því að spila með þeim bestu á næsta ári. Við viljum sjá okkar fólk í sýnu besta stuði í kvöld kl 18.00 !!

Kær kveðja
Óli Stefán Flóventsson“