Nýjast á Local Suðurnes

Yfir 3.000 fermetrar seldir á Ásbrú árið 2015 – Nær allt iðnaðarhúsnæði í útleigu

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, seldi rúmlega 3.000 fermetra af húsnæði sem félagið hafði til umráða á gamla varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll á árinu 2015. Þetta kemur fram í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2015, sem birt var á dögunum.

Á árinu 2015 voru seldir um 1.700 m2 iðnaðarhúsnæðis og um 1500 m2 af íbúðarhúsnæði. Auk þessa stóð félagið í viðræðum við aðila um áramót sem vænta mátti að myndi leiða til viðunandi kauptilboða og í framhaldi sölusamninga.

Þá kemur fram í skýrslunni að nær allt iðnaðarhúsnæði sem félagið hefur enn yfirráð yfir hafi verið í útleigu á árinu, en leigutekjur ársins námu rétt rúmum 200 milljónum króna á árinu.

“Með útleigu eigna hafði á undangengnum árum tekist að laða að fyrirtæki með fjölbreyttan bakgrunn og mismunandi starfsemi. Sú uppbygging hefur skilað þeim árangri að með betri tíð hafa nokkur þessara fyrirtækja sóst eftir því að kaupa þær eignir sem þau hafa leigt af félaginu undanfarin ár.” Segir í ársskýrslunni.