Nýjast á Local Suðurnes

Styrkur arsens í andrúmslofti hefur margfaldast eftir að framleiðsla hófst hjá USi í Helguvík

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Umhverfisstofnun ákvað að vakta sérstaklega þau efni sem ekki er hægt að mæla í rauntíma við kísilframleiðslu United Silicon í Helguvík. Um er að ræða 16 mismunandi PAH efni, 7 þungmálma og brennisteini í svifriki frá mælistöð fyrirtækisins. Flest þeirra efna sem mæld eru mælast undir viðmiðunarmörkum, að undanskyldum styrk arsens, sem hefur mælst um og yfir mörkum, en styrkur arsens í andrúmslofti hefur margfaldast frá því verksmiðjan tók til starfa, en styrkurinn var 1 ng/m3 áður en framleiðsla hófst en nú í kringum 6 ng/m3, en umhverfismörk arsens eru 6 ng/m3, miðað við heilt almanaksár.

Þetta kemur fram í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi fyrirtækinu og er nú aðgengilegt á vef stofnunarinnar. Í bréfinu kemur fram að fylgjast þurfi náið með losun sem getur haft áhrif á styrk arsens og gera viðeigandi ráðstafanir. Í bréfinu kemur einnig fram að þau efni sem mæld eru í rauntíma hafi ekki farið yfir viðmiðunarmörk.