Nýjast á Local Suðurnes

Leigufélag hættir við að setja íbúðir á Ásbrú í útleigu – Fjöldi manns gæti lent á götunni

Fjöldi manns, sem eru á biðlista eftir íbúðum hjá leigufélaginu Ásbrú íbúðir ehf. fengu upphringingu frá fyrirtækinu í dag, þar sem þeim var tilkynnt að félagið hafi ákveðið að selja íbúðirnar á almennum markaði, frekar en að leigja þær út. Fjöldi fólks hafði þegar sagt upp því húsnæði sem það er í nú, eða selt sínar íbúðir og stefnir því í að margir verði húsnæðislausir á næstunni.

Viðmælendur Suðurnes.net, sem áttu von á að fá íbúðir leigðar hjá fyrirtækinu, segjast vonsviknir með stöðu mála, enda hafi fólk sagt upp því húsnæði sem það býr í og verði húsnæðislaust, jafnvel um næstu mánaðarmót. Þá segist fólk einungis hafa munnleg loforð frá starfsmönnum Ásbrú íbúðir ehf, en engir samningar hafi verið undirritaðir, því sé lítið hægt að gera annað en að reyna að finna húsnæði á mettuðum markaði.

“Ég átti von á að fá afhenta íbúð hjá þessu fyrirtæki fyrir mánaðarmót, en eins og staðan er núna verð ég á götunni með tvö börn.” Segir kona sem ekki vill koma fram undir nafni.

Þá hafa líflegar umræður skapast um stöðu mála í lokuðum Facebook-hópi íbúa á Ásbrú og er fyrirtækinu ekki vandaðar kveðjurnar.

“Mjög siðlaust en er eiginlega viss um að þetta sé löglegt… við t.d erum á götunni eftir 2 vikur með 4 börn sem búa á heimilinu og 3 sem koma aðra hverja helgi” Segir meðal annars í umræðunum.

Ásbrú íbúðir ehf., er í eigu Íslenskra fasteigna hf., sem festu kaup á íbúðum og iðnaðarhúsnæði á Ásbrú af Kadeco fyrir um 5 milljarða króna í desember á síðasta ári.