Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Stóra pizzumálið og ungur aðstoðarmaður – En ekki hvað?

Föstudagspistillinn mættur sjóðandi heitur, í bullandi yfirþyngd og stútfullur af íslenskri karlmennsku….. eða hvað ? Góða skemmtun elskurnar.

„Hvað er svona merkilegt við það að bora í vegg“ sungu Grýlurnar á sínum tíma og vöktu athygli á að konur geta verið jafn handlagnar og karlmenn. Ný bresk rannsókn sýnir að karlmenn eru að breytast í hálfgerðar dúkkur. Flestir sem tóku þátt í könnunni sögðust þurfa hjálp við að skipta um dekk. Einn af hverjum fimm treystu sér í að laga leka í vatnskrana. Já karlmennskan er á undanhaldi miðað við þessa rannsókn. Ég er að vísu glaður að ég tók ekki þátt í þessari könnun til að draga enn meira niður karlmennskuna. Ég er skelfilegur með verkfæri. Einu sinni fékk ég lánaða borvél og ætlaði nú heldur betur að bjarga mér sjálfur. Bróðir minn re-freshaði mbl.is allann daginn því hann var sannfærður um að það kæmi frétt „maður fór sér að voða með borvél í Grafarvogi.“ Ég horfði á helv…. borvélina og lét þetta eiga sig.

Árni Árna

Árni Árna

Ég verð nú bara að halda áfram að vitna í dægurlagatexta og syngja „það er draumur að vera með dáta“ já bandarískri herinn gæti verið á leiðinni til Keflavíkur aftur. Að vísu ekki í þeirri stærðargráðu sem áður þekktist, en rússneskir kafbátum á norðurslóðum fjölgar ört. Hérna kæmu þá eftirlitsvélar frá USA ásamt einhverjum huggulegum dátum. Það er nú ljótt ef maður þarf að flytja aftur suður ef það fyllist allt af dátum aftur.

Bílastæðagjöld Isavia við flugstöð Leifs Eiríkssonar komust í hámæli í vikunni. Þau munu hækka svo um munar á næstunni. Efnahagur þjóðarinnar hefur ekki verið svona góður um árabil, hagvöxtur, verðbólga, sama hvaða viðmið eru skoðuð, hérna er allt í ljómandi lukku. Nema að sum fyrirtæki og stofnanir leyfa sér að hækka og hækka sem er óþolandi. Í þessu dæmi sjáum við gott dæmi um einokun. Það er bara eitt fyrirtæki (Isaavia) sem hefur stæði til umráða við flugstöðuna og getur þvi leyft sér slika kúgun. Get eg fengið lóð og reist þar bara bílastæðahús á nokkrum hæðum ? Það væri framför því ekki getur Isavia falið sig á bakvið kostnað á sliku húsi, það er bara endalaus landrými á Miðnesheiði malbikað – þessi vinnubrögð sjást vart annarsstaðar.

Hótel Adam er víst ekki að slá í gegn um þessar mundir. Logið að túristum að ekki megi drekka vatn á krönum og þeim selt vatn sem gæti alveg eins verið tappað á flöskur í kjallaranum á hótelinu. Þar eru greidd laun undir kjarasamningum og svona má áfram halda. Þetta segir okkur að það er ekki nóg að henda upp hótelum á hverju götuhorni í miðborginni. Viljum við að hérna sé bara hent upp hótelum sem eru illa rekin, bjóða upp á lélega þjónustu, koma illa fram við viðskiptavini sem og starfsfólk? Erum við ekki að kafna í græðginni hvað þetta varðar?

Ég gerði í vikunni grín á facebook af Gauta Geirssyni, nýráðnum aðstoðarmanni utanríkisráðherra. Ekki það að ég hafi eitthvað út á þennan unga mann að setja, heldur gerði ég grín af aldri hans. En ég verð að vera samkvæmur sjálfum mér og taka upp hanskan fyrir Gauta. Það er búið að drulla yfir hann alla vikuna – ég er talsmaður breytinga í stjórnmálum, ég hef gagnrýnt að ungt fólk fái ekki tækifæri í stjórnmálum enda margur maðurinn og konan eins og límd niður í stóla og embætti. Ég vil ferska vinda, ég vil nýja ferska ásýn, ég vil að rödd unga fólksins fái að njóta sín – gangi þér vel Gauti, þú hlýtur að geta leyst þetta með prýði fyrst að það er 2ja ára fitubolla forsætisráðherra.

Það er ekki nóg að við íslendingar, eða hluti okkar, séu gjammandi á samskiptamiðlum og rífum hvort annað í okkur með rudda- og dónaskap, þá erum við farin að missa okkur í skírnaveislum. Á dögunum gáfu hjón barninu sínu nafnið Marísa. Það varð víst allt vitlaust við athöfnina og gestir létu þau orð falla að nafnið væri skelfilegt. Já sumir eru alltaf í dómarasætinu og telja sig yfir aðra hafna. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég hef nú bara séð mörg önnur skelfilegri nöfn en þetta ágæta nafn. Ég man eitt skiptið þá var ég að „hjálpa“ jólasveininum að færa yndislegum börnum gjafir á aðfangadag, þarna voru samankomin nokkur börn með fallegu brosin sín og ánægð að sjá jólasveinana heima í stofu. Nema hvað að ég gat vart lesið nöfnin á pökkunum og ákvað í skepnuskap mínum að rétta bara jólasveininum pakkana og láta hann glíma við ónefnin.

Eru ekki veitt mannúðarverðlaun einu sinni á ári ? Ég mæli með að skólastjóri Fellaskóla verði svo sannarlega heiðraður að þessu sinni fyrir framúrskarandi leiðtogahæfni, samkennd og yndisleg samskipti við nemendur skólans. Ég get ekki betur séð en að grunnskólar þurfi að fara yfir verklag hvað varðar skólamat. Nemendum er nánast úthýst fyrir að kaupa ekki þessa þjonustu í skólum. Þeir nemendur sem koma með nesti þurfa í sumum skólum að sitja annarsstaðar eins og útigangshross. Ég vil bara benda skólastjóra Fellaskóla á það að ef það er pizzaveisla einu sinni á ári, væri fínt að senda foreldrum þeirra nemenda bréf og greina frá því og kanna hvort það sé áhugi á að þeirra börn taki þátt í veislunni. Ef svo er þa er pantað í samræmi við það og allir ganga sáttir frá borði. Hvaða útskúfun og einelti er stundað af þessum tiltekna skólastjóra. Svo tekur fræðsludeild borgarinnar upp varnir fyrir þessi vinnubrögð – flókið bókunar og pöntunarkerfi. Þetta eru ekki svínabú þetta eru börn – lagið kerfið strax.

Hrós vikunnar fær nafni minn, Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar. Það hlýtur að taka á að stýra löskuðu skipi og viðurkenna mistök flokksins. Hann sendi frá sér bréf þar sem hann telur meðal annars upp mistökin að styðja við Icesave samninginn og neita þjóðinni um að hafa eitthvað um samninginn að segja. Hann bendir á ESB aðildarviðræðurnar þar sem það var vitað allan tímann að VG vildi ekki ganga í sambandið. Bréfið er þó umdeilt í Samfylkingunni og það liggur auðvitað beint fyrir að Árni nýtur ekki trausts og verði sturtað niður í júni. Það verður gaman að sjá hvort það virki eins og hjartastuðtæki á deyjandi flokk.

Á hverju er Birgitta Jóns kapteinn pírata? Hvernig getur hún rökstutt og fjármagnað tillögu sína um að íslenska ríkið greiði hverjum og einum íslendingi 300 þúsund á mánuði? Til hvers ? þetta kostar rikið 100 milljarða á mánuði. Við setjum 140 milljarða á ári í heilbrigðiskerfið. Þetta er svo galið að ég spyr mig vill þjóðin í alvöru Birgittu sem næsta forsætisráðherra? Er ekki hægt að gera raunhæfa kröfu á þingmenn að þeir séu soldið með á nótunum i vinnunni og að lágmarki kynni sér fjárforráð ríksins. Ég segi nú bara enn og aftur, þarf alltaf að vera vín?

Góða helgi