Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni fjallar um markaðsvæðingu barna og skelfilega sumartísku

Mikið hafði ég gaman af því þegar Steypustöðin tók fyrir snapchat-æði foreldra. Það er nokkuð ljóst að sumir fara fram úr sér hvað þetta varðar. Auðvitað eru börn yndisleg og frábært að sjá góð móment, en sumir hafa bara engin takmörk. Mist Eik í baði, Mist Eik borðar banana, Mist Eik búin að kúka í bleyjuna, Mist Eik sofandi. En það er nú svo að það er ekki sent af Mist Eik í frekjukasti, eða þegar Mist er leiðinleg. Þetta er að sjálfsögðu hálfgerð markaðsvæðing og nánast kapphlaup foreldra um að eiga skemmtilegustu og mestu krútt börnin. Einn af þeim fáu sem ná að gera krakka-snöppin skemmtileg er Sóli Hólm. Ég bara dýrka litla strákinn hans, enda er pabbinn húmorískur og kann að meta hvað er skemmtilegt og hvað ekki.

arni arna keflavikurn

Illugi Jökulsson, rithöfundur er án efa þjóðhetja. Hann á ekki bara þakkir skyldar fyrir að fella Sigmund Davíð og koma á nýrri ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins – heldur er hann líka farinn að slökkva elda í samfélaginu. Mikil lukka að þessi dáðadrengur hafði ekki sofnað við gömlu ritvélina árla dags fyrr í vikunni þegar plastborð nágrannans stóð í ljósum logum. Snarræði þjóðhetjunnar varð til þess að fjölskyldan í næsta húsi tapaði ekki heimilinu sínu. Ég geri bara kröfu um að við í Sjálfstæðisflokknum bjóði hann velkominn í flokkinn. Setjumst niður með kaffibollann, ræðum fall Sigmundar og Framsóknarflokksins og hver veit nema að hann liggi á nokkrum skrítlum úr herbúðum VG. Illugi ég biðla til þín, ég hef áður þakkað þér fyrir að berjast fyrir nýrri ríkisstjórn, en nú vil ég þig í flokksstarfið.

Stundum eru sumir óheppnari en aðrir. Pétur Gunnlaugssnn, útvarpsmaður á útvarpi Sögu var kallaður kúkur mánaðarins á netmiðlum. Kallgreyið stefndi konu sem hafði deilt óæskilegri mynd þar sem þessi óheppilegi titill var ritaður ásamt nafni hans. Pétur sem er mannvinur mikill og ræðir í þætti sínum um flóttamenn og samkynhneigða tapaði málinu og þarf að greiða konunni 800 þúsund. Er hægt að vera óheppnari? Ef ég væri Pétur myndi ég bara sleppa því að kaupa lottó, en hann getur fagnað því að málfrelsið er til staðar og getur því haldið áfram að tjá sig í þætti sínum í von um að einhver nenni að hlusta.

Lars fyrrum landsliðsþjálfari, er hræddur um að við elskum hann ekki lengur. Nýverið gekk hann frá samningum við Noreg um þjálfun landsliðsins. Ég verð nú að viðurkenna að það er mikill missir af þeim gamla, en ætla nú ekki að detta í sama tilfinningaklámið og hann og lýsa yfir hreinræktaðri ástarsorg, en viðurkenni um leið að það hefði verið gott að hafa hann áfram með strákana okkar.

Það er greinilegt að það er ekki mikið að gera hjá Bessastaðabóndanum eftir að hann og frúin snéru aftur heim frá danaveldi. Hann hékk upp í flugstöð til að taka á móti ferðalöngum til að drepa tímann. Þetta athæfi lak í fjölmiðla erlendis. Góður dani sá að Bessastaðabóndanum sár leiddist, bjargaði málinu og sendi á Bessastaði Andrés önd – blað. Bessastaðbóndinn hefur nú legið yfir blaðinu sér til dægrarstyttingar og flissað stöku sinnum af Georgi gírlausa, sem er í uppáhaldi.

Ég skaut í síðustu viku á rósótta kápu forsetafrúnnar, sem minnti mig á amerískt sófasett. Ég átti svo leið um Kringluna í vikunni og mér til mikillar skelfingar sá ég að frúin góða er nýmóðins. Hver tuskubúðin af annarri troðfull af rósóttu og skræbóttu drasli. Tískan þetta sumarið mun án efa laða fram sjóntruflanir og mígrenisköst. Ég er ekki frá því að ég hafi séð stæðuna af blússum í sama mynstri og var á eldhúsgardínunum á æskuheimilinu í kringum 1990. Allt fer þetta í hringi, sama hversu ljótt það er.

Sorpa þarf að greiða 45 milljóna sekt fyrir brot á samkeppnislögum. Já það er barátta í ruslinu ef svo má segja. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga Sorpu sem selja fyrirtækjum og stofnunum þjónustu sína á hærra verði en sveitarfélögunum. Já hérna er ekki allt eins og það á að vera. Mikil umhverfisvakning og flokkun á rusli á síðustu árum laðar fram mörg tækifæri í þessum geira. Einnig eru sveitarfélög að setja kröfur á fyrirtæki og almenning á sama tíma og sveitarfélögin greiða minna fyrir sömu þjónustu. Sorpa er leiðandi í sorphirðumálum og sóknarfærin er að aukast. Er ekki ráðlegt að selja Sorpu og útboð eigi sér stað um sorphirðu sveitarfélaga?