Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Hætti frekar að drekka en að fara í meðferð

Ég er ekki frá því að eina skemmtilega í þessri viku var veðrið, svona framan af. Ekkert spennandi fréttavika og neyðist ég til að tala um sjálan mig bara í von um að föstudagspistillinn sé skemmtilegur að þessu sinni.

Nýjustu fréttir herma að Guðni kannski- forsætisfrámjóðandi er ennþá að íhuga framboð. Þetta er farið að minna á erfiða meðgöngu hjá þessum ágæta manni. Leiðilegt að sjá hvað þetta er farið að skaða hann. Guðni átti fullt erindi í framboð enda vænn einstaklingur og hefði án efa átt góða möguleika. En að geta ekki ákveðið sig svo vikum skiptir og vera stanslaust í fjölmiðlum á meðan legið er undir feldinum góða gefur ekki góða trú á hann sem forseta. Hvernig hefði hann brugðist við pólitísku fléttu Sigmundar Davíðs á dögunum? Væri málið í umhugsunarferli hjá forseta í margar vikur? Ég er mest hræddur um að þetta verði eins og meðganga hjá fílunum sem ganga með fóstrin í 18 mánuði – hann verður ennþá að íhuga stöðu sína löngu eftir kjördag.

Árni Árna

Árni Árna

Veit ekki hvernig ég get útskýrt það en óvenjulega takmarkaður áhugi minn á brjóstum kvenna, en það kvikna spurningar hvort 18 lítrar af móðurmjólk sé ekki mikið magn? Bandarísk kona var stöðvuð á flugvelli í Bretlandi með þetta magn í handfarangri. Mjólkin var að vísu frosin og hafði hún safnað og fryst jafnóðum. Hún á 8 mánaða gamlan son og er útivinnandi. Ég fór að setja þetta í samhengi í huganum og sá fyrir mér 9 2 litra gosflöskur – þetta er engin smá framleiðsla. Er þetta kannski bara eðlilegt? Það er ekkert smá sem konur eru fullkomnar, ekki nóg með að þessi kríli vaxi og dafni í móðurkviði heldur er framleiðslan, alla vega hjá sumum, á við góða mjólkurkú. Sé þá tekið hlutfallslega mið við stærð og þyngd í þessum samanburði mínum.

Aflandsfélög, skattaskjól og bla bla bla gleypti þessa viku í sig eins og hefur verið upp á síðkastið. Nú á að knésetja forsetann vegna tengdarfjölskyldunni í Bretlandi. Æi ég sé ekki hvernig hann átti að hafa vitað eða tengst þeim málum. Ég sé að þessar forsetakosningar verða harðar, Andri Snær fær að finna fyrir því að hafa fengið um 40 milljónir í listamannalaun fyrir eina bók og framvegis. Það hefur allt breyst svo eftir hrunið, það virðist bara vera í lagi að láta allt vaða og reyna að hafa það nógu skítugt. Er samt sáttur með þá þverpólitísku afstöðu margra um að gagnrýna fyrirhuguð mótmæli fyrir utan heimili Bjarna Benediktssonar. Svona í fljótu bragði man ég eftir því að Siv Friðleifs og Ögmundur Jónasson hafa orðið fyrir áreiti á heimilum sínum. Sem og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Það má ekki gleyma að stjórnmálamenn eiga fjölskyldur og ef fjölskyldan skynjar ekki öryggi á heima fyrir þá endar þetta bara á einn veg. Við erum að skapa samfélag sem dregur úr fólki til að gefa kost á sér. Sama hvort það sé í pólitík eða embætti forseta. Hver vill fá mótmælendur á stofugluggann hjá sér? Það eru margir sem geta tekið þetta til sín og ég er alveg einn af þeim líka.

Guðni ekki frambjóðandi tilkynnir að tíminn vinni með honum – Ekkert að gerast í hans herbúðum, þetta er svipað og þegar kvika er á hreyfingu og ekki er vitað hvort það gjósi.

Ég þarf svo að hunskast í megrun. Það er stanslaust verið að bjóða mér í lífsstílsmat á vegum Herbelife. Það er auðvitað ljúft að eiga góða vini þarna úti sem er umhugað um fjandans töluna á baðvigtinni hjá mér. Ég segi nú eins og maðurinn sem drakk of mikið, frekar hætti ég að drekka en að fara í meðferð. Að vísu kviknaði hjá mér von í brjósti þegar ég heyrði af snyrtistofu sem frystir á manni spikið og maður bara pissar því nokkru síðar. Ég er að sjálfsögðu búinn að panta frystigám sem er væntanlegur á bílastæðið á næstunni – gisti bara í honum og verð þvengmjór á no time !

Talandi um offitu þá verð ég bara að deila því með ykkur að þrátt fyrir aukaforðann þá er ég alveg skelfilegur kokkur. Þeir örfáu sem hafa lent í þeirri lífsreynslu að koma í mat til mín gera það ekki aftur. Sumir hverjir hafa stokkið til og leigt bústað af næsta stéttarfélagi ef til stendur að koma í mat til mín. Ef ekki er laus bústaður hefur fólk átt það til að kaupa helgarferð til útlanda – það er mikið á sig leggjandi til að sleppa við slíkan háska sem kemur upp úr pottunum hjá mér. Nema hvað að ég verð nú samt að hæla mér líka, ég er ágætur að þrífa og halda hlutunum í lagi í kringum mig. Nema hvað núna í vikunni fór ég að láta sturtuhengið fara í taugarnar á mér. Það var of sítt. Ég klippti neðan af því og var ánægður með árangurinn. Tók svo upp á því að kasta því í þvottavélina svo þetta væri nú allt eins og hjá fólki. Nema hvað að ég hengdi það upp aftur – þá var það bara eins og kvartbuxur ! Draslið hljóp í þvotti og endaði í ruslinu. Ég keupti nýtt og það er of sítt líka og verður bara þannig.

Einn vinur minn stofnaði til bankaviðskipta í vikunni fyrir nýtt hlutafélag. Það er ekkert fréttaefni, nema að hann þurfti að svara nokkrum spurningum hjá bankanum. Hann var spurður hvort félagið tengdist erlendum félögum sem ættu hlut í hans félagi – gott og gilt en þá kom stóra spurningin, tengist félagði þitt þingmanni eða háttsettum embættismönnum hjá hinu opinbera? Þetta er einkennilegt. Er ekki hægt að stofna til viðskipta án þess að blása allann grun um að þingmenn tengist fyrirtækinu? Samkvæmt lögum eru það þingmennirnir sem eiga að gera grein fyrir slíku, en þeim er greinilega ekki treystandi innan bankakerfisins. Þetta bankakerfi er eins og litla Rússland, ég man þegar Arion banki var stanslaust á línunni til að væla í mér að fá mér bláa kortið. Ég gaf mig og fékk fyrirframgreitt kort. Þegar ég sótti það var ég spurður hvort það stæði til að leggja verulegar háar upphæðir inn á kortið og hvort það stæði til að koma innlagnir inn á það erlendis frá. Spurningunum verður breytt núna og við spurð hvort við séum flokksbundin í Framsóknarflokknum – ertu skyldur konunni hans Sigmundar Davíðs?

Það er sérstakt hvað 365 fjallar lítið um Jón Ásgeir og Ingjbörgu hvað varðar aflandsfélög. Blaðran sprakk einhvernveginn, sló þögn á fréttadeildina miðað við áganginn á þá sem á undan komu. Ég horfði í vikunni á gamlan Kastljós-þátt þar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri mætti í settið. Þá rifjaðist upp sú staðreynd að Davíð varaði ætíð við Baugsveldinu. Landsmenn brugðust ílla við þessu hjá Davíð og oftar en ekki heyrðist að Davíð hlyti að eiga við geðræn vandamál að stríða. Hann mótmælti bankaæðinu með að taka út fjármagnið sitt í Búnaðarbankanum, hann lagði til harðari löggjöf um frjáls viðskipti en engin á þingi vildi heyra á þetta minnst. Eftir komu sína í Seðlabankann varaði hann við bankahruni, engin hlustaði á hann. Ótrúlegt en satt þegar litið er til baka þá hefðu hlutirnir þróast á annan máta ef Dabbi kóngur hefði alfarið ráðið ferðinni.

Bandarískur perdikari sendi okkur tóninn í vikunni. Fjöldi barnseigna utan hjónabands er um 67% og samkvæmt Biblíunni kallast þessi börn barstarðar. Þessi ágæti predikari (er svo ómerkilegur pappír að ég nenni ekki að leita að nafninu hans til að skrifa það rétt) segir að íslenskar konur séu hórur – og það slæmar hórur að þær taki ekki fyrir þjónustuna. Hann var í viðtali hjá Harmageddon og var þó smá jálvæður og taldi að hægt færi að finna eina og eina konu á Íslandi sem er ekki hóra. Ég hreinlega skil ekki að á þeirri upplýsingaöld sem við búum á hvað það er til mikið af rugluðu fólki – bókstafstrúar á Biblíuna og önnur trúarbrögð. Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslnand sagði við mig þegar ég hitti hana á fyrirlestri um konur og stjórnmál, að ef hún væri ung kona myndi hún mennta sig í stjórnmálafræðum og guðfræði. Trúarbrögð væru rót átaka í heiminum. Þetta er algjörlega rétt hjá frú Vigdísi – mikið væri heimurinn betri án Biblíunnar og kórarins.

Rétt í lokin, eitt ljótt skot – brandari vikunnar var atvinnuauglýsing frá Símanum þar sem auglýst var eftir framtíðarstarfsfólki.

Góða helgi