Nýjast á Local Suðurnes

Rekstrarniðurstaða Grindavíkurbæjar mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir

Fyrri umræða um ársreikning Grindavíkurbæjar og stofnana hans fyrir árið 2015 fór fram á fundi bæjarstjórnar þann 26. apríl síðastliðinn. Fram kom á fundinum að rekstraniðurstaða sveitarfélagsins var mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta, er 216,3 milljónir króna í afgang en áætlun gerði ráð fyrir afgangi upp á 57,5 milljónir króna.

Eftirfarandi bókun var lögð fram á fundinum, en þar koma fram hestu tölur:

Rekstrarniðurstaða A-hluta er afgangur að fjárhæð 133,6 milljónir króna. Áætlun gerði ráð fyrir 17,2 milljónum króna í rekstrarafgang. Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta, er 216,3 milljónir króna í afgang en áætlun gerði ráð fyrir 57,5 milljónum króna í rekstrarafgang. Munar þar mestu um að rekstrartekjur eru 155,9 milljónum króna yfir áætlun.

Helstu frávik í rekstri samantekinna reikningsskila A og B hluta eru:
– Útsvar og fasteignaskattur eru 142,5 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir.
– Framlög Jöfnunarsjóðs eru 55,4 milljónum króna hærri en áætlun.
– Aðrar tekjur eru 42,0 milljónum króna lægri en áætlun.
– Laun- og launatengd gjöld eru 88,4 milljónum króna hærri en áætlun.
– Annar rekstrarkostnaður er 67,4 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir.
– Afskriftir eru 6,3 milljónum króna lægri en áætlun.
– Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 17,6 milljónum króna hagstæðari en áætlun gerði ráð fyrir.

Heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B hluta eru 8.410 milljónir króna. Heildarskuldir og skuldbindingar eru 1.536,4 milljónir króna. Lífeyrisskuldbinding er 534 milljónir króna og þar af er áætluð næsta árs greiðsla 24,5 milljónir króna. Langtímaskuldir eru 729,5 milljónir króna og þar af eru næsta árs afborganir 19,6 milljónir króna. Eigið fé í samanteknum reikningsskilum er 6.873,6 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 81,7%.

Skuldahlutfall A- og B-hluta skv. 2. tl. 64. gr. sveitarstjórnarlaga nemur 57,4% af reglulegum tekjum. Ef undanskilin er skuld að fjárhæð 514,0 milljónir króna sem til er komin vegna kaupa á Orkubraut 3 af HS Orku hf. og er greidd með auðlindagjaldi og lóðarleigu frá HS Orku hf. , þá er skuldahlutfallið 38,2%.

Skuldaviðmið skv. 14. gr. reglugerðar nr. 502 frá 2012 er negatíft í A-hluta þar sem hreint veltufé er hærra en heildarskuldir að teknu tilliti til frádráttar vegna lífeyrisskuldbindingar. Í samanteknum reikningsskilum A- og B-hluta er skuldaviðmiðið 5,2%

Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 501 milljón króna í veltufé frá rekstri sem er 18,7% af heildartekjum en áætlun gerði ráð fyrir veltufé frá rekstri að fjárhæð 301,7 milljónum króna.

Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í samanteknum reikningsskilum A og B hluta nam á árinu 2015, 404,3 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 433,1 milljón króna.

Á árinu voru engin ný lán tekin en afborganir langtímalána voru 29,3 milljónir króna.

Handbært fé lækkaði um 1,6 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir lækkun að fjárhæð 258,4 milljónum króna. Handbært fé í árslok 2015 var 1.295,8 milljónir króna.

Þá samþykkti bæjarstjórn samhljóða að vísa ársreikningi Grindavíkurbæjar og stofnana hans fyrir árið 2015 til síðari umræðu í bæjarstjórn.