Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjabær fær 15 milljóna verkefnastyrki

Suðurnesjabær fær styrki til tveggja verkefna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Um er að ræða viðbótarstyrki úr sjóðnum vegna Covid 19.

Annars vegar er verkefnið „Aðkomusvæði við Skagagarðinn“, nýr ferðamannastaður í Garði, styrkt en verkefnið felur í sér hönnun og verklegar framkvæmdir.  Skagagarðurinn er ævafornt mannvirki sem byggt var á 11. öld og með þessu verkefni er unnið að því að gera Skagagarðinn sýnilegan og vekja athygli á honum.

Áætlaður kostnaður við verkefnið er alls 14.600.000 og er styrkfjárhæð kr. 11.680.000.

Hins vegar er veittur styrkur vegna göngustígs frá Útskálakirkju að höfn í Garði.  Verkefnið felst í undirbúningi og hönnun á göngustíg með ströndinni frá Útskálakirkju að hafnarsvæði. Um er að ræða áframhald á göngustíg sem liggur meðfram ströndinni frá Garðskaga að Útskálakirkju. Í þessum áfanga er ekki gert ráð fyrir verklegum framkvæmdum.

Áætlaður kostnaður er kr. 3.800.000 og er samþykkt styrkfjárhæð kr. 3.040.000.