Nýjast á Local Suðurnes

Boranir HS Orku í Eldvörpum hefjast um mitt næsta ár

Grindavíkurbær hefur veitt HS Orku hf. framkvæmdaleyfi til rannsóknarborana í Eldvörpum. Framkvæmdin hefur farið í gegnum feril mats á umhverfisáhrifum og deiliskipulag af borplönum hefur verið staðfest. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir fimm borplönum en samkvæmt HS Orku hf. er gert ráð fyrir að byrjað verði að bora við Sandfell og í kjölfar þess frá stækkuðu núverandi borplani. Unnið verður úr upplýsingum úr þessum tveimur borunum og á grundvelli þeirra tekin ákvörðun hvort bora þurfi fleiri rannsóknarholur. Það er því ekki víst að heimildin fyrir fimm borplönum verði notuð, segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Borplön rannsóknarborana verða staðsett innan svæðis á náttúruminjaskrá og sömuleiðis á svæði sem nýtur hverfisverndar á aðalskipulagi Grindavíkur 2010-2030 en í skilmálum hverfisverndar er gert ráð fyrir að leyfa vinnsluholur háhita. Öll undirbúningsvinna rannsóknaborana hefur miðað að því að uppfylla skilmála hverfisverndar sem meðal annars fela í sér að halda skuli mannvirkjagerð í lágmarki og að nota skuli núverandi vegslóða við framkvæmdina. þá er óheimilt er með öllu að hrófla við gígunum sjálfum.

Heimild er til að hafa stærð hvers borplans um 5.700 m2 samkvæmt deiliskipulagi en áætluð stærð er 4.200 m2 og verður lögð áhersla á að hafa borplönin eins lítil og mögulegt er án þess að það ógni öryggi eða hagsmunum framkvæmdarinnar. Borplan þar sem núverandi hola er staðsett verður stækkað um 2.000 m2 og vegna nálægðar við Eldvarpagígana og sérstakra hraunmyndana hefur staðsetning þeirrar stækkunar verið vönduð þannig að hún valdi sem minnstum áhrifum.

Fyrirhuguð stækkun á núverandi borplani er gefin til kynna með brotinni  svartri línu. Nærliggjandi gígar eru afmarkaðir með rauðum lit en á myndinni má einnig sjá helli sem telst til fornleifa og fundarstað sjaldgæfra háplöntutegunda. Afmörkun borplansins tekur mið af nærumhverfinu.

Fyrirhuguð stækkun á núverandi borplani er gefin til kynna með brotinni
svartri línu. Nærliggjandi gígar eru afmarkaðir með rauðum lit en á myndinni má einnig sjá helli sem telst til fornleifa og fundarstað sjaldgæfra háplöntutegunda. Afmörkun borplansins tekur mið af nærumhverfinu.

Rannsóknaboranirnar koma ekki til með hafa áhrif á gígaröð Eldvarpa og göngustígar og slóðar verða áfram opnar þeim ferðamönnum sem vilja sækja svæðið heim. Áhrif af hávaða frá framkvæmdum og vegna blásturs borholna kunna að valda áhrifum á upplifun ferðamanna og útivistarfólks sem eiga leið um svæðið en þau áhrif eru tímabundin. Áætlað er að rannsóknarboranir hefjist um mitt ár 2016.