Nýjast á Local Suðurnes

Tilnefna aðila í neyðarstjórn og vinnuhóp Almannavarna

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur falið bæjarstjóra að tilnefna aðila í vinnuhóp Almannavarna Suðurnesja auk þess sem tillaga bæjarstjóra um skipan neyðarstjórnar Reykjanesbæjar var samþykkt.

Vinnuhóp Almannavarna Suðurnesja er ætlað að vinna áætlun um aðgerðir komi til alvarlegra atburða á svæðinu sem meðal annars yrðu þess valdandi að neysluvatn, vatn til húshitunar og rafmagn yrði af skornum skammti eða myndi detta út. Fulltrúar frá öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum utan Grindavíkur munu eiga fulltrúa í hópnum auk fulltrúa frá HS Veitum og HS Orku.

Skipan neyðarstjórnar Reykjanesbæjar var einnig samþykkt, en ekki var útlistað í fundargerð bæjarráðs undir hvaða kringumstæðum sú stjórn yrði virkjuð eða hverjir skipa hana.