Tveir björgunarbátar við leit fyrir utan Voga
Tveir björgunarbátar leita nú af sér allan grun á svæðinu í kring um Voga á Vatnsleysuströnd, eftir að tilkynning barst um torkennilegan hlut á floti nokkur hundruð metra frá landi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg, sem birt er á vef mbl.is, en þar segir að björgunarsveitir í Vogum og Reykjanesbæ hafi verið kallaðar út á tíunda tímanum í kvöld eftir að tilkynning barst frá íbúa í Vogum um hlut sem sést hafði í sjónum.
Um fimmtán mínútum síðar var björgunarbátur kominn á vettvang til leitar og stuttu síðar fann áhöfn hans fljótandi tómt fiskikar og stendur leit enn yfir á þeim slóðum.