Nýjast á Local Suðurnes

Forsvarsmenn United Silicon þögulir – Talið líklegt að milljarðurinn verði greiddur

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Frestur kísilvers United Silicon í Helguvík til þess að ganga frá greiðslu á rúmlega milljarði króna til verktakafyrirtækisins ÍAV rann út á fimmtudag. Þriggja manna gerðardómur komst að þeirri niðurstöðu að United Silicon þyrfti að greiða ÍAV upphæðina vegna ógreiddra reikninga við byggingu verksmiðju fyrirtækisins.

Forsvarsmenn United Silicon hafa ekki svarað fyrirspurnum Suðurnes.net um það hvort greiðsla hafi verið innt af hendi eða hvort til standi að greiða umrædda upphæð, en sem fyrr segir rann frestur sem fyrirtækið hafði til greiðslu á rúmum milljarði króna út á fimmtudag.

Suðurnes.net ræddi óformlega við nokkra sérfræðinga í fjármálum fyrirtækja sem töldu líklegt að fyrirtækið myndi greiða skuldina. Rétt er að taka fram að þeir sérfræðingar sem Suðurnes.net ræddi við hafa ekki komið að fjármögnun verksmiðjunnar á nokkurn hátt, en allir voru þeir sammála um að væntanlega hafi þegar verið gerðar ráðstafanir til greiðslu skuldarinnar og allir telja þeir að niðurstaða gerðardóms sé á línu við það sem forsvarsmenn fyrirtækisins áttu von á.

Máli sínu til stuðnings benda þeir meðal annars á að gerðardómur sé skipaður fulltrúum sem skipaðir eru af fyrirtækjunum tveimur auk eins óháðs aðila, sem leiði til þess að líklegt verði að telja að aðilar nái saman um upphæð. Þá nefna þeir að upphæðin sem um ræðir sé sannanlega kostnaður við bygginguna. Að auki benda þeir á að fjárfestar hafi þegar lagt mikið fé í verkefnið og að þeir séu þar af leiðandi líklegir til að leggja þessa uppæð til.

Upphafleg krafa ÍAV hljóðaði upp á rúma tvo milljarða auk dráttarvaxta, en þar af námu reikningar vegna framkvæmda við verksmiðjuna 1,1 milljarði króna.