Nýjast á Local Suðurnes

Bílastæðaþjónusta vill lóð í nágrenni flugstöðvar – “Bílarnir ávallt vaktaðir”

Sjá má bíla í hundraðatli víða við Reykjanesbrautina

Forsvarsmenn Base Parking ehf. hafa sótt um lóð í grennd við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, í landi Sandgerðisbæjar, en þar stendur til að setja upp vaktaða, malbikaða bílageymslu á vegum fyrirtækisins.

Í samtali við Suðurnes.net segja forsvarsmenn fyrirtækisins að vegna mikils fjölda bifreiða í geymslu hjá fyrirtækinu hafi verið brugðið á það ráð að geyma bifreiðar á malarvegum og þjónustusvæðum við Reykjanesbraut í grennd við flugstöðina.

Þá segja forsvarsmenn fyrirtækisins að bifreiðarnar séu aðeins geymdar á þessum svæðum í stutta stund, á mestu álagstímunum, en á álagstímum er tekið á móti allt að eitthundrað bifreiðum, sem síðan eru ferjaðar á geymslusvæði fyrirtækisins á Ásbrú. Þá vildu þeir taka fram að ávallt sé vakt við þær bifreiðar sem fyrirtækið sé með í geymslu fyrir viðskiptavini sína, einnig á þeim svæðum þar sem þær eru geymdar í stutta stund.

“Þjónustan virkar þannig að við erum að taka á móti 40-50 bílum i einu – eða eins og síðustu daga 70-100 bílum i einu – þá þurfum við skammtímalausn yfir mestu traffíkina og síðan eru allir bílarnir ferjaðir upp á Ásbrú. Bílarnir eru alltaf vaktaðir af starfsmanni, hvort sem það sé á þessu skammtímasvæði eða svæðinu okkar á Ásbrú.” Segja forsvarsmenn Base Parking ehf.