Nýjast á Local Suðurnes

Bílastæðaþjónustur nota malarvegi og þjónustusvæði við Reykjanesbraut sem geymslupláss

Sjá má bíla í hundraðatli víða við Reykjanesbrautina

Mikil ásókn er í bílastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar um páskana, líkt og verið hefur yfir hátíðir undanfarin ár. Isavia, rekstraraðili flugstöðvarinnar, hefur meðal annars brugðið á það ráð að takmarka pantanir á bílastæðum einungis við veflausn fyrirtækisins, þannig að farþegar geta ekki vænst þess að fá stæði við stöðina nema hafa pantað slíkt fyrirfram.

Þá hafa bílastæðaþjónustur sem starfa við flugstöðina brugðið á það ráð að leggja bílum viðskiptavina sinna á allt laust pláss sem finnst við flugstöðina, þar á meðal á malarvegi og þjónustusvæði Vegagerðarinnar við Reykjanesbraut, en fyrirtækin auglýsa þjónustu sína á þann veg að bifreiðar viðskiptavina séu geymdar á vöktuðu svæði.

Bílastæðaþjónustan Base Parking ehf. er eitt þeirra fyrirtækja, en fyrirtækið hefur kvartað undan Isavia til samkeppniseftirlitsins þar sem það fær ekki stæði til geymslu á bílum á skammtímastæðum við flugstöðina.

„Þeir eru að leggja stein í götu okkar, það er augljóst. Þeir hafa reynt að reka okkur frá flugstöðvarbyggingunni, reynt að sekta okkur fyrir að nota í mjög skamma stund bílastæði nálægt flugvellinum og svo í ofanálag eru þeir farnir að bjóða upp á nákvæmlega sömu þjónustu og við erum að veita.“ Segja forsvarsmenn fyrirtækisins í frétt Vísis frá því fyrr í vetur.