Nýjast á Local Suðurnes

Minni vatnsnotkun með tilkomu mæla

Hagstætt tíðarfar og breyting á sölufyrirkomulagi HS Veitna, með uppsetningu nýrra mæla hefur haft töluverð áhrif til lækkunar á vatnssölu fyrirtækisins. Vatnsnotkun var tæplega 8% minni á Suðurnesjum árið 2016 samanborið við árið 2015. Svipaða sögu er að segja af öðrum starfssvæðum fyrirtækisins. Uppsetning mælanna olli töluverðri óánægju á meðal viðskiptavina fyrirtækisins í upphafi, en sumir fengu afar háa reikninga fyrst um sinn.

Byrjað var að skipta út mælum seinni huta árs 2015 og í lok árs 2016 höfðu verið settir upp 3.382 mælar í stað hemla, á Suðurnesjum, 1.451 í Reykjanesbæ, 765 í Grindavík, 418 í Sandgerði, 303 í Garði, 326 í Vogum og 119 á Ásbrú.

Í tilkynningu á heimsíðu HS Veitna segir að hagstætt tíðarfar undanfarið hafi áhrif á notkunina, en að breytingin á söluferlinu hafi einnig áhrif.

“Sú staðreynd að vatnskaup námu 52,6% af vatnssölunni 2016 en 56,5% árið áður bendir eindregið til að breytingin á sölufyrirkomulaginu hafi umtalsverð áhrif til lækkunar kostnaðar fyrir bæði HS Veitur og viðskiptavini fyrirtækisins.”