Nýjast á Local Suðurnes

Komu í veg fyrir 90 milljóna króna fíkniefnasölu á síðustu stundu

Myndin tengist ekki umræddu máli

Talsverð fjölgun varð á fíkniefnamálum sem komu til afgreiðslu í almennri deild lögreglunnar á Suðurnesjum á árinu 2016, sé miðað við fjölda mála sem upp komu árið á undan. Tvö umsvifamikil mál komu til kasta deildarinnar sem sneru að framleiðslu fíkniefna í umdæminu á árinu 2016.

Í ársskýrslu Lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir árið 2016, sem birt var á dögunum kemur fram að lögreglumönnum hafi meðal annars tekist að haldleggja fíkniefni, sem annars hefðu verið komin í sölu og dreifingu daginn eftir að málin komu upp. Um var að ræða tvö aðskilin mál þar sem andvirði efnanna var hátt í 90.000.000 króna, miðað við smásöluverð á götunni. Í báðum þessum málum var búið að koma upp framleiðsluaðstöðu í íbúðum sem eingöngu voru notaðar til þessarar iðju. Einnig lagði lögregla hald á fjórar milljónir í reiðufé við húsleit í umdæminu, sem talið er að sé ágóði af sölu fíkniefna.