Nýjast á Local Suðurnes

World Class opnar í Reykjanesbæ – Korthafar hafa aðgang að öllum stöðvum

World Class stefnir að opnun líkamsræktarstöðvar í Reykjanesbæ, en fyrirtækið hefur tryggt sér húsnæði undir starfsemina við Hafnargötu í Reykjanesbæ. Björn Kr. Leifsson eigandi World Class staðfesti þetta í samtali við Suðurnes.net og sagði að stefnt væri að opnun stöðvarinnar á þessu ári.

Húsnæðið sem fyrirtækið hefur fest kaup á er á annari hæð við Hafnargötu 91 og er ráðgert að stöðin verði rúmlega 800 fermetrar að stærð og búin fullkomustu tækjum sem völ er á, þar á meðal fullkomnum tækjasal og gufubaðsaðstöðu.

Að sögn Björns stefnir fyrirtækið að opnun tveggja stöðva í ár, í Reykjanesbæ og við Vellina í Hafnarfirði, en fyrir rekur World Class tólf stöðvar um land allt.

Korthafar hafa aðgang að öllum 12 stöðvum World Class, auk þeirra tveggja sem til stendur að opna, ásamt aðgangi að Laugardalslaug, Seltjarnarneslaug, Lágafellslaug, Árbæjarlaug, Sundhöll Selfoss og Breiðholtslaug. Þá er úrval af fjölbreyttum opnum hóptímum í tímatöflu World Class einnig innifalið fyrir kortahafa.